141. löggjafarþing — 33. fundur,  13. nóv. 2012.

breytingar á byggingarreglugerð.

[14:04]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég skil vel þær áhyggjur sem hv. þingmaður hefur af þessum þætti en hins vegar er um að ræða gríðarlega mikilvægt framfaraskref. Þegar við endurskoðum mannvirkjalög og í kjölfarið á því byggingarreglugerð gerum við það sérstaklega með það í huga að ævisparnaður Íslendinga liggur að jafnaði í íbúðarhúsnæði. Þess vegna skiptir gríðarlega miklu máli annars vegar að auka eftirlit með því að þeir sem fara með einstaka verkþætti skili þeim svo sómi sé að þannig að menn lendi ekki í því að vera með ævisparnað sinn í uppnámi, og hins vegar þau grundvallarprinsipp samfélaga sem byggja á jöfnuði sem eru að samfélagið allt sé aðgengilegt þeim sem búa við fötlun eða þeim sem aldraðir eru, og þá ekki bara þær íbúðir sem eru sérstaklega hugsaðar til þess heldur samfélagið allt. Þá getur fólk búið lengur heima hjá sér og þá náum við frekar þeim markmiðum. Ég hef trú á því að iðnaðurinn geti axlað þetta með okkur og að þau 10–20% (Forseti hringir.) sem nefnd hafa verið séu algjörlega út úr kortinu.