141. löggjafarþing — 33. fundur,  13. nóv. 2012.

reglur um lausagöngu búfjár.

[14:06]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn minni til hv. formanns Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Þannig er mál með vexti að hæstv. umhverfisráðherra Svandís Svavarsdóttir lýsti þeirri skoðun sinni í grein í Bændablaðinu að banna ætti lausagöngu búfjár á landinu en setja skyldi ákvæði um heimildir til að veita undanþágur á því banni, án nokkurrar skilgreiningar á því í hverju þessar undanþágur mundu felast.

Í dag er því öfugt farið; í lögum um búfjárhald er meginreglan sú að lausaganga er leyfð en heimildir eru til að banna hana á afmörkuðum svæðum. Þetta eru stór tíðindi frá hæstv. ráðherra. Mig langar að spyrja hæstv. atvinnuvegaráðherra út í skoðun hans á málinu og hvort hugmyndir umhverfisráðherra samrýmist stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Forustumenn sauðfjárbænda hafa hafnað hugmyndunum alfarið og segja að yrðu þær að veruleika mundi grundvöllur sauðfjárræktar víða um land bresta. Það mundi hafa meiri og alvarlegri afleiðingar í för með sér og hefði áhrif á byggð hringinn í kringum landið, sérstaklega á svæðum sem erfitt eiga og eru jafnvel skilgreind sem varnarsvæði.

Þórarinn Pétursson, formaður Landssambands sauðfjárbænda, er þungorður í Bændablaðinu og gagnrýnir að ráðherrar setji fram hugmyndir af þessu tagi þegar nefnd sé að störfum sem fara eigi yfir málið.

Þórarinn segir, með leyfi forseta:

„Mér finnst ekki góður svipur á því að ráðherra grípi þarna fram fyrir hendurnar á nefndinni sem er að skoða þessi mál í samstarfi aðila.“

Ég spyr hæstv. ráðherra: Megum við búast við því að slíkar tillögur komi fram frá ríkisstjórninni fyrir komandi kosningar? Og ég endurtek fyrri spurningu mína: Er þetta stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs?