141. löggjafarþing — 33. fundur,  13. nóv. 2012.

reglur um lausagöngu búfjár.

[14:08]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég tel að menn hafi gert allt of mikið veður út af því þó að umhverfisráðherra hafi í grein sinni velt upp spurningunni um hver meginreglan eigi að vera og hvað eigi að vera undanþægt, hvort meginreglan eigi að vera vörsluskylda og síðan séu veitt frávik frá því eða öfugt, eins og það er í dag gagnvart sauðfénu. Auðvitað hlýtur niðurstaðan að skipta mestu máli og ég tel að enginn, hvorki umhverfisráðherra né ég, tali fyrir því að sett sé á alger vörsluskylda á sauðfjárrækt í landinu. Ég les ekki það út úr grein umhverfisráðherra, heldur hitt að taka þurfi vel á þessum málum og reyna að hafa um þau frið.

Ég held að við þekkjum öll það vel til aðstæðna að við vitum vel að það er ekki raunhæft eða viðráðanlegt fyrir sauðfjárræktina eins og hún er stunduð á stórum landshlutum. Ég tel reyndar að það séu ekki umhverfisleg rök eða þörf fyrir því að við tökum frá svæði með sterka gróðurþekju eins og Vestfirði og Austurland. En í gosbeltinu eru þessi mál því miður ekki alls staðar í góðu lagi og er heldur ekki hægt að stinga höfðinu í sandinn gagnvart því þó að margt hafi þróast með jákvæðum hætti undanfarin ár, meðal annars með fækkun sauðfjár og mikilli uppgræðslu í landinu. Enn eru því miður svæði sem þar sem taka þarf betur á í þessum efnum og er það skylda umhverfisráðherra að standa vaktina þar.

Engin flokksstefna hefur verið mótuð af okkar hálfu um eitt eða annað í þessum efnum og ég segi það fyrir mitt leyti, og grundvalla það á þekkingu minni á þessari atvinnugrein, að það er ekki raunhæft. Það á ekki að draga upp neinar grýlur í þeim efnum að hægt sé að stunda sauðfjárræktina án verulegra breytinga með því að koma á vörsluskyldu. Ég hef hins vegar lengi barist fyrir því og flutt þingmál á Alþingi um að koma á algerri vörsluskyldu gagnvart stórgripum. Það þarf að taka betur á þessum málum, til dæmis meðfram þjóðvegunum út af umferðaröryggi o.s.frv. Liður í því getur verið svæðisbundin vörsluskylda, (Forseti hringir.) hvernig sem henni verður komið á, en í öðrum landshlutum tel ég hvorki raunhæft né þörf á því að breyta fyrirkomulaginu í aðalatriðum frá því sem nú er.