141. löggjafarþing — 33. fundur,  13. nóv. 2012.

staða þjóðkirkjunnar og safnaða landsins í ljósi niðurskurðar undanfarinna ára.

[14:25]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Í nýafstaðinni þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur að nýrri stjórnarskrá var sérstaklega spurt um afstöðu almennings til þjóðkirkjunnar. Niðurstaðan var afgerandi. Íslendingar vilja þjóðkirkju. Þjóðkirkjan hefur veigamiklu hlutverki að gegna í samfélagi okkar. Hún ber lögbundnar skyldur, menningarlegar og félagslegar skyldur. Hún hefur verið það skjól sem þorri Íslendinga hefur leitað til í sorgum og gleði, jafnt í einkalífi sem og í þjóðlífinu sjálfu, ekki síst þegar áföll hafa dunið yfir þjóðina.

Síðustu ár hafa verið kirkjunni erfið í margvíslegum skilningi, meðal annars fjárhagslega. Líkt og aðrar stofnanir þjóðfélagsins hefur kirkjan tekist á við mikinn niðurskurð. Þegar grannt er skoðað virðist sá niðurskurður jafnvel umtalsvert meiri en öðrum stofnunum hefur verið ætlað og þetta þarf að skoða.

Megintekjustofnar þjóðkirkjunnar eru tveir. Annars vegar greiðsla fyrir eignir sem kirkjan afsalaði ríkissjóði 1997 og hins vegar skil á félagsgjaldi sem ríkið tók að sér að innheimta og var árið 1987 umreiknað í tiltekið hlutfall tekjuskatts. Í ljós hefur komið að frá og með fjárlögum 2009 hafa þessir tekjustofnar verið skertir umtalsvert. Að teknu tilliti til verðþróunar nemur skerðing sóknargjalda um 20% og við þetta bætist hagræðingarkrafan sem gerð er til allra stofnana samfélagsins, þar á meðal kirkjunnar, en einnig tilfinnanleg fækkun gjaldenda í sumum sóknum. Að sögn þeirra sem til þekkja er þetta nú þegar farið að hafa umtalsverð áhrif á grunnþjónustu kirkjunnar; helgihaldið, æskulýðsstarfið, sálgæsluna og líknarmálin.

Við svo búið má ekki standa því að meðan við höfum þjóðkirkju í landinu verðum við að búa svo að henni að hún geti sinnt sínu lögbundna hlutverki. Andleg umönnun er alveg jafnmikilvæg á erfiðum tímum (Forseti hringir.) eins og hafa verið í þjóðlífi okkar og önnur umönnun, eins og segir á góðum stað: Maðurinn lifir ekki á brauði einu saman.