141. löggjafarþing — 33. fundur,  13. nóv. 2012.

staða þjóðkirkjunnar og safnaða landsins í ljósi niðurskurðar undanfarinna ára.

[14:28]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu um stöðu þjóðkirkjunnar, það er brýnt að koma að sjónarmiðum um það mál.

Að mínu mati og margra fleiri er ekki eðlilegt fyrirkomulag að hafa ríkiskirkju í nútímasamfélagi. Hvað ríkiskirkju varðar erum við þar í flokki með Bretlandi og Danmörku, svo ég nefni nágrannaríki okkar, og svo erum við í flokki með ríkjum íslams sem liggja meðfram Miðjarðarhafsströnd Norður-Afríku.

Það var naumur meiri hluti í atkvæðagreiðslunni 20. október, ekki afgerandi meiri hluti, fyrir því að áfram yrði ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá. Þeirri niðurstöðu ber að sjálfsögðu að fylgja. Það þarf þó að gera breytingar á núverandi ákvæði og taka inn vernd allra trúfélaga, ef menn vilja halda í trúarbrögð sem stjórnarskrármál á annað borð.

Það er líka brýnt að láta kirkjuna innheimta eigin sóknargjöld sjálf, á sama hátt og var gert með iðnaðarmálagjaldið fyrir tveimur árum, og eins og gert er með félagsgjöld í öðrum félögum, svo sem KR, Val eða Sjálfstæðisflokknum.

Það er sjálfsagt að ríkið veiti fé til kirkjugarða eða til greftrunarstaða fólks og einnig til viðhalds tiltekinna kirkna, til dæmis í samráði við húsafriðunarnefnd. Kirkjur eru sögulega séð mjög merkilegar byggingar hér á landi og má alls ekki láta þær verða fúa að bráð.

Frú forseti. Ríkiskirkja eins og við búum við í dag er úrelt fyrirkomulag og tímaskekkja. Fyrirkomulagið er hamlandi á störf kirkjunnar eins og við sem þekkjum kirkjustarf í öðrum löndum höfum séð. Í Bandaríkjunum til dæmis, þar sem er aðskilnaður ríkis og kirkju, er kirkjustarf gríðarlega líflegt og stór hluti af daglegu samfélagi.

Kristilegt siðgæði og kristileg hugsun stendur vel ein og sér og þarf ekki á ríkinu að halda nema síður sé eins og dæmin sanna. Við eigum að feta okkur yfir á þá braut, hægt og bítandi að sjálfsögðu, en við eigum að feta okkur þangað. (Forseti hringir.)