141. löggjafarþing — 33. fundur,  13. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[14:56]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Eftir því sem ég best veit erum við nú að greiða atkvæði um sundurliðun 2, breytingu á þskj. 443. Þar eru aukin útgjöld til Fjármálaeftirlitsins meðal annars til komin vegna eftirlits með slitastjórnum. Ég vil vekja sérstaka athygli á því að um er að ræða 68 milljónir. Ef einhverjir velkjast í vafa um það að Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit með slitastjórnum þá er það enn og aftur skýrt hér, enda vita allir sem vilja vita að þrotabú gömlu bankanna þriggja voru með fjármálafyrirtæki með starfsleyfi til 19. júlí 2011 og síðan hefur lögum verið breytt þannig að Fjármálaeftirlitið hefur sérstakt eftirlit með því.

Ég vek athygli á því í ljósi ummæla hæstv. atvinnuvegaráðherra hér áðan og hvet menn til að skoða lögin, fjárútlátin og ummæli hæstv. ráðherra.

(Forseti (RR): Forseti biður hv. þingmann um að greiða atkvæði.)

Ég segi já.