141. löggjafarþing — 33. fundur,  13. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[14:57]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hvað varðar útgjöldin í A-hlutanum þá hefði verið mjög áhugavert að fá álit Ríkisendurskoðunar á ákveðnum spurningum sem hér eru uppi, m.a. hvernig við höldum á málefnum Íbúðalánasjóðs, hvort rétt hafi verið að taka tillit til þeirra óumflýjanlegu útgjalda sem þar eru til orðin í þessum lið eða með einhverjum öðrum hætti í bókhaldi ríkisins. Það hefði verið akkur í því fá álit Ríkisendurskoðunar og einnig þau gögn sem meiri hlutinn bað um til að leggja mat á aðra útgjaldaliði, hvort nægjanlega vel var að verki staðið, hvort ástæða sé til að ætla að enn frekari útgjöld verði, hvort við séum að mæta þeim kostnaði sem í raun og veru falli til.

Aftur þetta, virðulegi forseti: Hvers vegna í ósköpunum höfum við ekki fengið og höfum við ekki fyrir framan okkur álit Ríkisendurskoðunar og þau gögn sem minni hlutinn í fjárlaganefnd kallaði eftir?