141. löggjafarþing — 33. fundur,  13. nóv. 2012.

eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.

363. mál
[15:17]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það umhverfi sem þarf að vera í kringum eftirlit með innflutningi, framleiðslu og dreifingu á áburði þarf að vera þannig að þeir sem við eiga að búa, eru notendur vörunnar, geti treyst því í hvívetna. Við vitum að ýmislegt hefur verið reynt í þessum efnum. Markaður fyrir áburð hefur verið að breytast, áður var þetta fyrst og fremst einn innlendur aðili sem framleiddi áburðinn. Nú er því öfugt farið, nú er áburðurinn fluttur inn og framleiðendur og innflytjendur geta verið býsna margir.

Það er eðlilegt við þær aðstæður að búnar séu til samræmdar reglur um það hvernig standa skuli að upplýsingagjöf varðandi efnainnihald í áburði. Auðvitað var það þannig líka meðan Áburðarverksmiðjunnar naut við að hún þurfti að uppfylla kröfur um efnainnihald og menn urðu að geta treyst því að um væri að ræða heilnæman og góðan áburð sem hefði þá virkni sem að var stefnt. En aðstæðurnar eru, eins og ég var að segja, á margan hátt orðnar breyttar í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa á áburðarmarkaðinum.

Það tilvik kom upp fyrir fáeinum árum, eins og menn rekur kannski minni til, að ósk barst frá samkeppnisaðila um að upplýst yrði um efnainnihald í áburði hjá öðrum samkeppnisaðila. Þá kom í ljós að lagaheimildir til að kalla eftir þeim upplýsingum og gera þær opinberar voru ekki til staðar. Það var bagalegt í sjálfu sér en framkvæmdarvaldið á þeim tíma var bundið af löggjöfinni eins og hún stóð og gat þess vegna ekki brugðist við eins og framkvæmdarvaldið, get ég fullyrt, á þeim tíma hefði gjarnan kosið.

Það er ekkert óeðlilegt, nema síður sé, að upplýsingar af þessu tagi liggi fyrir þannig að sá sem er að kaupa áburð geti fullvissað sig um að áburðurinn sé með því efnainnihaldi sem honum ber að vera og ekki sé nein hætta á ferðum varðandi áhrif áburðarins á jarðveg og tún bænda og annað þar sem áburður er borinn á.

Hér er einmitt verið að styrkja þennan þátt málsins með því annars vegar að tryggja að framleiðendum og dreifingaraðilum á áburði verði skylt að leggja fram vottorð um kadmíuminnihald og tilkynna breytingar á efnainnihaldi til Matvælastofnunar og sömuleiðis er sú skylda lögð á innflytjendur, framleiðendur og dreifingaraðila á áburði að stöðva markaðssetningu hans ef hann telst ekki öruggur til notkunar.

Þarna er á sinn hátt verið að leggja þessa ábyrgð á hendur þeim sem sér um eða annast eða hefur með höndum og ber þar með ábyrgð á dreifingu á áburðinum. Síðan er það þá Matvælastofnun, sem er eftirlitsaðili, sem á að fylgjast með því að þetta fari fram með eðlilegum hætti.

Ég held að þetta sé í sjálfu sér skynsamleg breyting. Í fyrsta lagi að ábyrgðin í þessu máli sé þá hjá þeim sem vélar með eða selur og dreifir áburðinum. Þar hlýtur ábyrgðin alltaf fyrst og fremst að liggja þegar um er að ræða menn í viðskiptum. Síðan er gert ráð fyrir því að Matvælastofnun hafi þetta eftirlit.

Ég tel einnig að það sé mjög jákvætt sem verið er að opna á í frumvarpinu, þ.e. verið er að opna á möguleika á að framselja tiltekið eftirlitshlutverk frá Matvælastofnun, sem kveðið er á um í núgildandi lögum, til heilbrigðisnefnda sveitarfélaga. Hvað sem menn segja að öðru leyti um eftirlit þá hefur það mjög mikla tilhneigingu til að vaxa og stundum alveg úr hófi eins og við vitum. Mér hefur fundist að á undanförnum árum sé það orðin viðtekin venja að menn óttist dálítið að ræða hvort eftirlit sé kannski orðið of mikið og of kostnaðarsamt fyrir atvinnulífið.

Menn segja sem svo: Það fór allt úr böndunum vegna þess að eftirlit skorti. Það er að vísu ekki alveg rétt fullyrðing en það er sú fullyrðing sem oft er höfð í frammi og þess vegna sé það orðin svona sjálfvirk réttlæting þess að auka eftirlit á öllum sviðum, kannski gagnrýnislítið.

Eins og ég skil frumvarpið þá er þó alla vega viðleitni í þá átt að koma í veg fyrir einhvers konar tvíverknað og þar með kostnað fyrir þá sem við eiga að búa, hvort sem það eru framleiðendur, sem munu væntanlega færa þann kostnað yfir á herðar þeirra sem kaupa hjá þeim, eða kostnað sem með beinum hætti fellur á notendur, sem í þessu tilviki væru bændur eða Landgræðslan. Þess vegna sé eðlilegt að reyna að hafa eitthvert hóf á kostnaði við eftirlitið. Það sem verið er að leggja til í frumvarpinu, og það felur í sér, er að fela megi heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga, sem er á ferðinni á svipuðum slóðum og á svipuðum tímum til síns lögbundna eftirlits, þetta eftirlit innan þeirra mörkuðu laga sem frumvarpið kveður á um.

Það er eitt atriði sem mig langar aðeins að velta upp í þessu sambandi. Nú skil ég það vel, og ég nefndi það hér áðan, að gert er ráð fyrir því að ábyrgðin á þessu máli sé hjá dreifingaraðilanum. Þar hlýtur frumábyrgðin alltaf að vera í öllum viðskiptum, þ.e. hjá þeim sem viðskiptin stunda. Ég tek hins vegar eftir því að í 11. gr. frumvarpsins er opnað á býsna miklar heimildir til refsinga. Ég hef svo sem ekki farið í það að bera þetta saman við aðra löggjöf. Hæstv. ráðherra vísaði til laga varðandi aðra starfsemi, þ.e. vátryggingastarfsemi, við útgáfu ákvæðisins. Nú er ég ekki alveg viss um hvort þetta sé algjörlega samanburðarhæft, það er eitthvað sem við þurfum aðeins að velta fyrir okkur. Ég sé hér sem sagt að verið er að opna á nokkuð miklar heimildir til refsinga. Eitt er það að beita stjórnvaldssektum, eitt er það að stöðva innflutning en hér sýnist mér að verið sé að ganga nokkuð lengra, þ.e. að það að flytja inn áburð sem ekki stenst lágmarkskröfur kunni að geta farið að varða við frekari refsingar.

Nú geri ég ráð fyrir því að út frá reglum um meðalhóf verði ekki gengið allt of harkalega fram í þeim efnum og ég geri svo sem ekki ráð fyrir að ætlunin sé að gera það. Menn kunna að vera í þeirri stöðu að fyrir vangá eða eitthvað annað verði slíkur innflutningur til og ég er ekki að mæla honum bót. Ég er bara einfaldlega að varpa því inn í þessa umræðu hvort við þurfum ekki að skoða sérstaklega 11. gr., við sem sitjum í atvinnuveganefnd Alþingis, með hliðsjón af meðalhófi annars vegar, með hliðsjón af öðrum refsiákvæðum í öðrum lögum til þess að gæta tiltekins samræmis.

Mig langar aðeins að reifa þessar umþenkingar mínar án þess að ég hafi á þessu allt of stífar skoðanir, ég hef ekki haft tækifæri til að fara svo rækilega ofan í þetta mál. Ég tel hins vegar ástæðu til að hugleiða þetta og tel fulla ástæðu til að hv. atvinnuveganefnd Alþingis skoði það sérstaklega þegar hún fær málið til meðhöndlunar.

Virðulegi forseti. Ef ég dreg þetta allt saman þá sýnist mér í fljótu bragði að það sem verið er að gera sé skynsamlegt. Verið er að tryggja að hægt sé að fylgjast, með virkari hætti en lög gera ráð fyrir í dag, með því að fóður sem selt er innan lands uppfyllir þau skilyrði sem því ber að uppfylla. Það er gert með því að dreifingaraðilum og framleiðendum er skylt að leggja fram vottorð og sömuleiðis er þeim skylt að tilkynna breytingar á efnainnihaldi. Þeim er líka skylt að stöðva markaðssetningu áburðar ef hann telst ekki öruggur til notkunar.

Þetta síðasta atriði kann að vekja upp spurningar eins og við munum eftir í síðasta áburðarmáli. Staðan var þá sú að áburður var kominn, búið að dreifa honum á tún, ef ég man rétt, svona að langmestu leyti og auðvitað var ekki hægt að sópa honum upp úr jarðveginum aftur. Síðan var sú staða uppi að menn hefðu verið áburðarlausir ef dreifing á áburði hefði til dæmis verið stöðvuð eftir að efnainnihaldið varð ljóst. Það var líka ljóst mál að þó að þetta væri yfir viðmiðunarmörkum mundi það ekki skaða jarðveginn til neinnar framtíðar og væri hættulaust mönnum og dýrum. Ég hygg því að frá þeim sjónarhóli hafi það verið ákvörðun Matvælastofnunar, sem var mjög umdeild á þeim tíma, að fara ekki í að innkalla áburðinn þrátt fyrir allt.

Þetta var einfaldlega mat á stöðunni. Við vitum að með því að við erum ekki með innlenda áburðarframleiðslu þá tekur það býsna langan tíma að útvega áburð frá útlöndum. Bændur gera sínar pantanir snemma árs og fá áburðinn síðan á vormánuðum eins og við vitum þannig að þetta er ekki allt saman alveg einfalt mál. En almennt talað hygg ég að frumvarpið sé til bóta þó að ég áskilji mér allan rétt til að fara ofan í efnisatriði, m.a. þau sem ég hef gert að umræðuefni.