141. löggjafarþing — 33. fundur,  13. nóv. 2012.

loftslagsmál.

381. mál
[15:28]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um loftslagsmál. Með frumvarpinu er lagt til að sett verði lagastoð fyrir innleiðingu á reglugerð (ESB) nr. 1193/2011 sem hefur að geyma ítarlegar reglur um rekstur og viðhald skráningarkerfis losunarheimilda sem starfrækt er í tengslum við viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. Lagt er til að hluti ákvæða framangreindrar reglugerðar verði innleiddur með þessu frumvarpi og að reglugerðin í heild sinni verði svo innleidd í reglugerð ráðherra með stoð í lögum nr. 70/2012, um loftslagsmál. Skráningarkerfið er í raun umfangsmikill rafrænn gagnagrunnur þar sem skráðar eru upplýsingar um stöðu og hreyfingar losunarheimilda ríkja og einkaaðila í tengslum við viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. Nærtækast er að líkja skráningarkerfinu við netbanka, en reikningur í skráningarkerfinu er forsenda þess að ríki, einstaklingar og lögaðilar geti átt losunarheimildir.

Ákvæði þau sem lagt er til að verði innleidd með frumvarpi þessu eru einkum þau sem geta falið í sér íþyngjandi ákvarðanir sem beinast gegn einstaklingum og lögaðilum. Hér er til dæmis um að ræða ákvæði um heimildir Umhverfisstofnunar til að synja umsókn um stofnun reiknings í skráningarkerfinu og loka reikningum eða aðgangi að þeim. Einnig er kveðið á um heimildir Eftirlitsstofnunar EFTA til að loka reikningum eða aðgangi að þeim.

Með frumvarpinu er einnig ætlunin að endurnýja og styrkja um leið þá lagastoð sem sett var með 22. gr. laga nr. 70/2012, um loftslagsmál, fyrir innleiðingu reglugerðar 920/2010 um skráningarkerfið sem var innleitt hér á landi með reglugerð nr. 360/2012 um skráningarkerfi fyrir losunarheimildir. Reglugerð 920/2010 er forveri reglugerðar (ESB) nr. 1193/2011 og mun síðarnefnda reglugerðin leysa þá fyrrnefndu af hólmi þann 1. janúar 2013.

Þá er ætlunin með frumvarpi þessu að útfæra nánar lagastoð fyrir innleiðingu reglna EES-samningsins um uppboð losunarheimilda sem íslenska ríkið fær til uppboðs samkvæmt reglum um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

Loks er frumvarpinu ætlað að gera smávægilegar breytingar á tilteknum ákvæðum laganna til að auka skýrleika og til lagfæringa á gildandi lögum í ljósi reynslu af framkvæmd þeirra.

Virðulegur forseti. Ég hef rakið meginefni frumvarpsins og legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.