141. löggjafarþing — 34. fundur,  14. nóv. 2012.

störf þingsins.

[15:02]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Í vetur hafa okkur í allsherjar- og menntamálanefnd, þar sem ég er formaður, og fjárlaganefnd, þar sem ég á sæti, borist margar og ítrekaðar áskoranir frá lögreglunni víða um land um að bregðast þurfi við bráðavanda sem í stefnir í starfi margra umdæma. Staðan er sérstaklega alvarleg meðal einstakra lögregluembætta og ef ekki verður brugðist við vanda þeirra þurfa þau samkvæmt rekstraráætlunum fyrir árið 2013 og næstu ár á eftir að fækka umtalsvert í fámennu liði víða um land.

Vandinn er sérstaklega mikill úti á landi, bæði fyrir norðaustan og á sunnanverðu landinu þar sem fáir eru á vakt á stórum svæðum. Gott dæmi um það er Suðurlandsundirlendið þar sem búa 15 þús. íbúar, annað eins bætist við um helgar og 700 þús. ferðamenn fara þar um á ári. 24 manna lögreglulið þarf að annast þetta svæði og þennan fólksfjölda allan. Svipuð dæmi mætti segja af norðaustanverðu og norðvestanverðu landinu þar sem mjög fáir lögreglumenn þurfa að sinna stórum og miklum landsvæðum. Ef það gengur eftir samkvæmt rekstraráætlun að enn frekar þurfi að fækka er hætta á að starf sumra þessara embætta nánast falli saman vegna fámennis í liðinu og þess hve fáir ganga vaktir á hverju svæði. Þetta þurfum við að skoða, sérstaklega áður en fjárlög verða afgreidd á þessu hausti, og hvernig við getum brugðist við vanda tiltekinna lögregluembætta. Ég hef rætt þetta mál við hæstv. innanríkisráðherra, forsætisráðherra og fjármálaráðherra og við í fjárlaganefnd höfum að sjálfsögðu ítrekað það sem og allsherjar- og menntamálanefnd. Við verðum að skoða hvernig við getum tekið stöðu lögreglunnar þannig að þessi embætti geti að minnsta kosti haldið í horfinu og þurfi ekki að fækka í fámennu liði sínu þannig að starfið á einstökum svæðum falli nánast saman út af því fámenni sem þarf að ganga vaktir. Ef fækkar enn frekar er starfið einfaldlega í uppnámi og bráðavandi blasir við.