141. löggjafarþing — 34. fundur,  14. nóv. 2012.

störf þingsins.

[15:13]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég vek athygli á grein sem Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, skrifaði um húsnæðisvexti í gær á vefritið Pressuna. Hann sýnir að vextir af húsnæðislánum eru allt að 3–4% hærri en þeir vextir sem fjárfestar á eftirmarkaði krefjast og það getur munað milljónum þegar allt er talið. Gylfi vill fá vexti niður almennt með breytingum á gengis- og peningastefnu. Ég tek undir það og segi: Í framtíðinni er evran auðvitað besta lausnin. En það er fleira að og Gylfi vill að allt húsnæðiskerfið verði skorið upp.

Við komum á sínum tíma á fót húsnæðisstofnun til að létta venjulegu fólki þetta verkefni, en sitjum núna uppi með hálfgert skrímsli sem heitir Íbúðalánasjóður og þrífst á gríðarlegum vaxtamun. Þeir hjá ASÍ benda á danska húsnæðiskerfið, eru að útfæra slíkt kerfi fyrir Ísland og ég tel það einnar messu virði fyrir okkur stjórnmálamennina hér að setjast yfir þetta.

Staðreyndin er sú að hið öfgafulla séreignarkerfi hefur komið okkur í klandur. Ungt fólk sem er á byrjunarreit í húsnæðismálum hefur lifað þær Íslendingasögur lengst af að eiga tvo kosti og hvorugan góðan, að hrekjast á milli leiguíbúða eða sökkva sér í skuldir. Í grannlöndunum hefur það verið verkefni jafnaðarmanna og verkalýðshreyfingar að tryggja öruggt húsnæði á góðum kjörum. Það hefur mistekist hérna, kannski vegna þess að önnur öfl hafa verið sterkari.

Margir sem lentu í hruninu með húsnæði sitt eru núna komnir aftur fyrir þennan byrjunarreit. Þegar ný kynslóð mætir til leiks blasa við sömu tveir gömlu vondu kostirnir, en þetta fólk getur farið þriðju leiðina. Það getur sest að í útlöndum, yfirgefið Ísland. Þetta er vandamál sem við munum takast á við á næstu árum; mánuðum, vikum og dögum. (Forseti hringir.) Við þurfum að byggja upp traustan leigumarkað, öflugt búseturéttarkerfi og alvörukaupleigukerfi. Þetta eru hagsmunir þeirra sem vilja fá þak yfir höfuðið. (Forseti hringir.) Þetta eru hagsmunir foreldra þeirra sem hafa lánað veð, hagsmunir atvinnulífs og verkalýðshreyfingar, lífeyrissjóða og ríkis. (Forseti hringir.) Ungt fólk á Íslandi þarf að geta fengið öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði. Það er málið.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir enn á ræðutímann sem er tvær mínútur og biður þingmenn um að virða hann.)