141. löggjafarþing — 34. fundur,  14. nóv. 2012.

störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Við höfum oft rætt á Alþingi um vanda skuldugra heimila. Upp á síðkastið hefur þessi umræða verið mjög hávær og ekki síst beinst að vanda þeirra sem tóku hin svokölluðu verðtryggðu lán. Hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Helgi Hjörvar, hefur tjáð sig hvað eftir annað um þetta viðfangsefni, síðast í sjónvarpinu í fyrrakvöld þegar hann sagði efnislega á þá leið að hann teldi ótvírætt að dómar í gengislánum kölluðu á að gripið yrði til aðgerða fyrir fólk með verðtryggð lán sem sé að sligast undan þeim.

Setjum þetta mál aðeins í samhengi. Ég hef undir höndum tölur sem varpa kannski dálitlu ljósi á þetta. Berum saman tvo einstaklinga sem í ársbyrjun 2006 keyptu sér fasteign fyrir 20 millj. kr. og tóku 70% lán. Í dag er staðan hjá þeim sem tók gengisbundið lán með þessu skuldahlutfalli sú að hann skuldar tæplega 13 millj. kr. Sá sem tók hins vegar verðtryggða lánið með sama skuldahlutfalli skuldar rúmar 20 millj. kr. Mismunurinn er 7 millj. kr. Ég hygg að hv. formaður nefndarinnar hafi verið að vísa til þessa raunveruleika.

Hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, en undir hann heyrir fjármálamarkaðurinn, ræddi þessi mál á Alþingi í gær og hann vísaði þá eingöngu til þess að í fjárlagafrumvarpinu væru boðaðar einhverjar tilteknar ráðstafanir, vaxtabætur og þess háttar, þó að þær vaxtabætur verði lægri á næsta ári eins og fjárlagafrumvarpið ber með sér en gert er ráð fyrir á yfirstandandi ári.

Nú vil ég spyrja hv. þm. Helga Hjörvar, formann efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, sem hefur mjög látið þetta mál til sín taka og hvað eftir annað boðað aðgerðir í þessum efnum hvort hv. þingmaður hafi með orðum sínum í sjónvarpinu í fyrrakvöld verið að vísa til þess sem stendur í fjárlagafrumvarpinu. Eða er hv. þingmaður að boða okkur (Forseti hringir.) tilteknar aðgerðir sem beinast að þeim hópi sem verst er staddur og hefur tekið verðtryggð lán, sérstaklega á árunum 2004–2009?