141. löggjafarþing — 34. fundur,  14. nóv. 2012.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir það dæmi sem hann rekur hér. Ég held að það sýni glögglega þann vanda sem við stöndum frammi fyrir, þá stöðu sem fólk með verðtryggð lán, fólk sem fór í Íbúðalánasjóð og var einfaldlega innan þeirra marka sem hið opinbera lagði að því að vera, er í eftir að þessir dómar eru gengnir. Það er óbreytt skoðun mín og ég styrkist í henni með hverjum mánuðinum að það sé nauðsynlegt að ráðast í aðgerðir til að styðja við þetta fólk, m.a. í ljósi gengislánadómanna en líka vegna þess að sá hópur sem þingmaðurinn nefndi og ég tel að sé sá hópur sem þurfi að taka á, það fólk sem keypti húsnæði á síðustu árunum fyrir hrun, er kynslóð sem verður fyrir þremur sleggjum í senn. Hún verður fyrir því að fasteignaverðið hrapar, að verðtryggðu íslensku lánin fara upp úr öllu valdi og kaupmátturinn fer niður. Það eru einfaldlega of mörg áföll í einu á eina kynslóð án þess að henni sé sérstaklega hjálpað í þeim efnum.

Ég hef lagt til aðgerðir í þeim efnum sem nema verulegum fjárhæðum, þá með því að fara í skattinneignina í séreignarsjóðunum sem flokkur hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar hefur áður lagt til í öðru samhengi. Það er enn þá sannfæring mín að við gerðum rétt í því á þessum erfiðu tímum að létta skuldabyrði þessarar kynslóðar með því að nýta skattinneignina í séreignarsjóðunum. Ég vonast til þess að stjórnmálabaráttan í vetur, kosningarnar fram undan, þær nýju framvarðarsveitir sem flokkarnir skipa sér í og þær stefnur sem þeir marka sér á fundum sínum í vetur geti orðið til þess að það verði meirihlutastuðningur við þær tillögur eða aðrar (Forseti hringir.) sambærilegar sem sérstaklega taki á málum þess fólks sem er með verðtryggð íslensk lán sem það tók á bóluárunum rétt fyrir hrun.