141. löggjafarþing — 34. fundur,  14. nóv. 2012.

störf þingsins.

[15:36]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Eins og aðrir hér sé ég ástæðu til að fagna þeim áfanga sem við höfum náð við undirbúning að breytingum á stjórnarskránni og þakka kærlega bæði stjórnlagaráði og þeim hópi lögmanna sem nú hafa skilað frá sér sínu verki fyrir vinnuna. Vegna orða hv. þm. Ólafar Nordal áðan vil ég segja að öll þau atriði sem hún rakti voru tekin upp í nefndinni á mánudaginn og tekið undir þau öll — nema það sem hún nefndi síðast, að hætta við að halda hér 1. umr. í næstu viku. Það dettur okkur ekki í hug að gera, við viljum fá málið inn í þingið og ljúka því sem fyrst.

Ég vil víkja aðeins að spurningum sem hv. þm. Birna Lárusdóttir varpaði fram vegna nýbyggingar Landspítalans. Þær voru nokkrar og ég ætla að reyna að hlaupa aðeins á svörum við þeim.

Já, fyrirætlanir stjórnvalda, og ég vil meina þingheims, um nýbyggingu Landspítalans á sínum stað standa óhaggaðar. Hún spurði um byggingarkostnaðinn sem er nálægt 60 milljörðum króna, þar af 7 fara milljarðar í tækjakaup. Þar hefur umfangið verið minnkað verulega, þetta er ódýrasta leiðin og sú besta sem völ er á.

Hún spurði: Hvaðan koma peningarnir?

Frú forseti. Það kostar nær 3 milljarða króna á ári að gera ekki neitt varðandi Landspítalann. Það sparast tæpir 3 milljarðar á ári við að hafa rekstur spítalans undir einu þaki. Það þýðir að á 20 árum mun þessi nýbygging borga sig upp. Þaðan koma peningarnir, frú forseti.

Nýtt kostnaðarmat á framkvæmdunum var kynnt í október síðastliðnum og það hefur staðist skoðun tveggja óháðra aðila og við fáum vonandi frumvarp bráðlega. Landspítalinn þjónar okkur öllum, þjónar öllum landsmönnum. (Forseti hringir.) Þetta er stærsta kennslustofnun landsins, stærsti vinnustaður landsins og þarna er hægt að gera læknisfræðilega dýrar og sérhæfðar aðgerðir sem hvergi er hægt að gera annars staðar (Forseti hringir.) á landinu. Það er hagsmunamál allra landsmanna að nýr landspítali rísi sem allra fyrst.