141. löggjafarþing — 34. fundur,  14. nóv. 2012.

byggðamál.

[15:44]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Hún er sannarlega þörf. Ég held ég reyni að svara spurningunum best með því að fara almennt yfir nokkur atriði sem ákveðin hafa verið og unnið er að sem skipta máli í byggðalegu tilliti. Markmiðið er að sjálfsögðu að byggð geti blómgast um allt land og öll byggðarlög fái nýtt sín tækifæri og möguleika.

Ég nefni fyrst fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar sem kynnt var og nú liggur fyrir hvernig fjármögnun hennar verður á fyrsta ári. Hún var sett fram upphaflega með fyrirvara um hverjar tekjur mundu skila sér af veiðigjöldum og arði úr bönkum, eignasölu og öðru slíku. Á næsta ári fara alls 10,3 milljarðar kr. í verkefni sem munu auka fjárfestingu og styðja við vaxandi atvinnugreinar, skapa hagvöxt og störf vítt og breitt um landið. Þar af fara í samgöngur 2,5 milljarðar sem gerir kleift að flýta Norðfjarðar- og Dýrafjarðargöngum og ýmsum öðrum brýnum vegbótum. Þá er tryggt fé vegna Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs og til endurbóta í Landeyjahöfn, samtals 640 milljónir. Í sóknaráætlun landshlutanna sem unnið er að um allt land í öflugu samstarfi við heimaaðila verður varið 400 millj. kr.

Á svið ferðamála er einnig lögð mikil áhersla, enda einn af mestu vaxtarbroddum íslensks atvinnulífs og dreifist mjög vel um landið og skapar störf vítt og breitt. Þar verða settar 500 milljónir til viðbótar í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða næstu þrjú árin sem gerir kleift að fara í mikið átak til að byggja upp innviði og sömuleiðis 250 milljónir í þjóðgarða og friðlýst svæði í sama skyni. Þessu fylgja að sjálfsögðu störf og framkvæmdir en ekki er þó síður mikilvægt að þarna erum við að efla innviðina og auka möguleika okkar til að takast á við vaxandi fjölda ferðamanna.

Þá má nefna Kirkjubæjarstofu en ákveðið er að ráðast í byggingu hennar og verja í það 290 millj. kr. og á Kirkjubæjarstofa að verða eitt af anddyrum Vatnajökulsþjóðgarðs. Þar á sannarlega í hlut ein af þeim byggðum sem hefur átt í vök að verjast, þ.e. Vestur-Skaftafellssýsla, eins og kom fram hjá hv. málshefjanda.

Í verkefni sem flokkast undir græna hagkerfið fara sömuleiðis talsverðir fjármunir og þeir dreifast í ýmis verkefni um allt land.

Varðandi jöfnun flutningskostnaðar, sem mikið hefur verið rætt á Alþingi árum og áratugum saman, eru loksins komin lög þar um og komu til framkvæmda 1. janúar sl. Með þeim er unnt að veita framleiðslufyrirtækjum á svæðum sem eru í a.m.k. 240 kílómetra fjarlægð frá útflutningshöfn 10% endurgreiðslu af flutningskostnaði en fyrirtæki sem liggja lengra frá fá 20%. Ég geri ráð fyrir að flytja á næstu vikum frumvarp sem framlengir gildistíma þeirra laga en heimilar jafnframt að fela Byggðastofnun að annast um framkvæmdina.

Strandsiglingar eru í undirbúningi, þ.e. að undirbúa útboð um strandsiglingar eins og komið hefur fram. Ég vil nefna eitt mál enn sem er auðvitað eitt af stóru og brýnu hagsmunamálum margra þessara byggða, þ.e. húshitunarkostnaðinn á köldum svæðum eða húshitunarkostnað þeirra sem kynda með rafmagni. Ég vonast til þess að við afgreiðslu fjárlaga nú verði tekið nokkurt skref í að jafna þann kostnað.

Þá að hinni sérstöku nálgun varðandi byggðir í bráðri hættu. Byggðastofnun hefur unnið þar mikið verk og skilgreint ýmis byggðarlög. Hún nálgast núna byggðamálin á öðrum forsendum en fyrr, annars vegar að skoða sterku svæðin, höfuðborgarsvæðið og 100 kílómetra radíus þar í kring, Miðnorðurlandið og Miðausturlandið, á þeim svæðum búa 92% þjóðarinnar. Hins vegar hafa nokkur byggðarlög sem eru á varnarsvæðum átt við mikinn vanda að etja um árabil. Það er því ekki rétt að tala um landsbyggðina í heild sem eina heldur fremur um landsbyggðirnar. Vandinn á varnarsvæðunum birtist fyrst og fremst í viðvarandi fólksfækkun, einhæfni atvinnulífs, fækkun starfa og hækkandi meðalaldri íbúanna eins og kom fram áðan. Þar er einkum um að ræða fámenna byggðakjarna og sveitir í umtalsverðri fjarlægð frá stærri byggðakjörnum. Ég hygg að segja megi að þrjú svæði séu einkum í forgrunni í þeirri flokkun eða skilgreiningu. Það eru svæði á Vestfjörðum, Suðausturlandi og á norðausturhorninu. Byggðastofnun hefur tillögur í smíðum um að leita nýrra leiða til að glíma við vanda slíkra byggða þar sem þurfi sértækari úrræði en hin almennu og hefðubundnu sem öflugri svæði geta nýtt sér betur. Byggðastofnun hefur sent ráðuneytinu greinargerð og tillögur í þeim efnum sem eru í skoðun í ráðuneytinu og við höfum fullan hug á að fylgja eftir.

Varðandi sjávarútvegsmál og önnur mál sem bar á góma, allt skiptir það að sjálfsögðu máli í glímunni við vanda byggðanna en hann er sannarlega ærinn og sérstaklega tilfinnanlegur í umræddum byggðum. Sumar hverjar hafa verið í fréttum að undanförnu þar sem menn hafa átt við langvarandi erfiðleika að etja. Ég hygg að hin nýja (Forseti hringir.) nálgun Byggðastofnunar sé skynsamleg í ljósi þessara aðstæðna, í ljósi reynslunnar og við eigum að styðja það að byggðamálunum verði sinnt sérstaklega með sértækum aðgerðum varðandi byggðir í bráðum vanda.