141. löggjafarþing — 34. fundur,  14. nóv. 2012.

byggðamál.

[15:57]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Þetta er mikilvæg umræða um byggðamál. Rótin að þeim vanda er að byggðirnar í landinu hafa verið sviptar atvinnumöguleikum þegar kvótinn fór frá þeim. Þetta er þróun sem þarf einfaldlega að snúa við því að tilvistarmöguleikar flestra þessara byggða byggjast á því að þær geti sótt sjóinn fyrir utan byggðina.

Hins vegar er annað mál sem menn tala harla lítið um og það er hverjir eiga atvinnufyrirtækin hringinn í kringum landið. Atvinnufyrirtækin þurfa að vera í eigu heimamanna til að arðurinn af þeim verði eftir í héraði svo hægt sé að byggja upp frekari atvinnutækifæri.

Förum aðeins hringinn í kringum landið. Hvað blasir við manni í nánast hverju einasta bæjarfélagi? Þar er Bónus, höfuðstöðvarnar eru í Reykjavík, arðurinn rennur til Reykjavíkur. Þar er Hagkaup, höfuðstöðvarnar eru í Reykjavík, arðurinn rennur til Reykjavíkur. Þar er Olís, N1, Landsbankinn og Arion banki. Höfuðstöðvarnar eru í Reykjavík, arðurinn af fyrirtækjunum rennur til Reykjavíkur. Þar er fjöldi hótela og annarra fyrirtækja sem eru með höfuðstöðvar í Reykjavík og arðurinn rennur þangað. Þetta er það sem er alvöruvandamál. Við getum byggt 10, 20 eða 30 byggðastofnanir til að reyna að laga þann vanda, en þetta mun ekki breytast að neinu marki fyrr en arðurinn úr fyrirtækjunum úti á landi verður eftir þar.

Ef við horfum á þetta úr fjarlægð þá er þetta nýlendufyrirkomulag þar sem Reykjavík er höfuðstöðvarnar og byggðirnar úti á landi eru nýlendurnar og arðurinn úr þeim rennur í heimsveldið. Þar til arðurinn varð eftir, alveg eins og Íslendingar stóðu frammi fyrir í sambandinu við Dani, þangað til Íslendingar sjálfir eignuðust atvinnutækin og fyrirtækin og arðurinn varð eftir á Íslandi þá varð engin uppbygging á Íslandi. Nákvæmlega þetta sama á sér stað hringinn í kringum landið. Þetta er risaverkefni (Forseti hringir.) en það er ekki að öllu leyti hinu opinbera um að kenna og það er ekki hægt að leiðrétta þá skekkju eingöngu með aðgerðum hins opinbera. (Forseti hringir.) Það þarf meira til og það er flóknara vandamál en svo að ég ráði við það.