141. löggjafarþing — 34. fundur,  14. nóv. 2012.

byggðamál.

[16:02]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að byrja á að þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir að vekja máls á þessu þarfa máli sem vekur mann til umhugsunar, ekki síður en þau ummæli sem hafa fallið í umræðunni. Ég held að við getum öll tekið undir orð hv. þm. Birnu Lárusdóttur sem sagði að nú skyldum við taka höndum saman og fara að gera eitthvað í staðinn fyrir að tala endalaust.

Frú forseti. Til þess að byggðir í landinu vaxi og dafni þarf auðvitað að vera til staðar atvinna og öryggi um atvinnu. Það þarf að vera einhver vissa um hvert stefnt sé og hvert umhverfið verði á næstu missirum til að fyrirtæki sem til staðar eru geti vaxið, dafnað, tekið ákvarðanir um frekari uppbyggingu o.s.frv.

Það er rétt sem kom fram hér í máli hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur að verkin tala. Við sjáum það af verkum núverandi ríkisstjórnar sem hefur tekið miklar ákvarðanir er varða með hvaða hætti atvinnulíf í landinu mun þróast. Teknar hafa verið ákvarðanir um ofurskattlagningu á sjávarútveginn sem hefur gríðarleg áhrif á allar sjávarbyggðir í landinu. Við höfum heyrt af litlum og meðalstórum útgerðum um land allt sem sjá ekki annan kost en að breyta verulega rekstri sínum, jafnvel selja og hætta. Þetta eru dæmi um verk sem tala.

Síðan er hægt að tala um þær virðisaukaskattshækkanir sem ráðist er í gagnvart ferðaþjónustunni án nokkurs fyrirvara. Þar eru líka verkin að tala gagnvart iðnaði sem er vaxandi eða átti að vera vaxandi á landsbyggðinni. Hér eru verkin að tala. (Gripið fram í.)

Það þriðja sem hægt er að tala um hér er landbúnaðurinn. Bændur vita ekki hvað framtíðin ber í skauti sér vegna áherslu Samfylkingarinnar á að ganga í Evrópusambandið. (Forseti hringir.) Þess vegna er fjárfesting þar einnig í lágmarki. (Gripið fram í.)