141. löggjafarþing — 34. fundur,  14. nóv. 2012.

byggðamál.

[16:06]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir að taka þetta mál upp hér. Ég ætla ekki að fara út í hvað núverandi ríkisstjórn hefur gert fyrir hinar dreifðu byggðir landsins því að þeir sem þekkja til hafa fundið það á eigin skinni, það þarf því ekki að fjalla um það hér.

Ég ætla að fjalla um byggðamál og með hvaða hætti við getum snúið vörn í sókn. Hér hefur verið talað um sértækar aðgerðir. Sértækar aðgerðir munu eingöngu gagnast þeim byggðarlögum sem verst standa og staðreyndin er sú að ef fram fer sem horfir með stóran hluta af hinum dreifðu byggðum mun þeim byggðarlögum fjölga sem komast í þann hóp að þurfa sértækar aðgerðir eins og Raufarhöfn.

Það sem við þurfum að ráðast í eru almennar aðgerðir í byggðamálum. Talað er um jöfnun húshitunarkostnaðar, það að veita fjármuni á hverju ári til jöfnunar húshitunarkostnaðar. Það er sértæk aðgerð. Við þurfum að breyta kerfinu og ráðast í almennar aðgerðir þannig að þetta gerist sjálfkrafa. Við þurfum að gera þetta á fleiri sviðum. Við þurfum að bæta umgjörð fyrirtækja á landsbyggðinni með almennum aðgerðum. Það eru til fyrirmyndir af slíku í byggðastefnu Norðmanna. Noregi er skipt upp í ákveðin svæði. Eftir því sem lengra er frá höfuðstaðnum Ósló er umgjörð fyrirtækja jákvæðari. Þau greiða lægra tryggingagjald, þau greiða jafnvel lægri skatta og fólk sem hefur tekið námslán greiðir lægra hlutfall af námslánum til baka ef það býr í hinum dreifðu byggðum landsins. Þetta mundi stuðla að því til lengri tíma litið að fleiri fyrirtæki mundu setjast að á landsbyggðinni og fleiri einstaklingar mundu gera það líka. Þá mundum við sjá að þeir miklu möguleikar sem landsbyggðin hefur, því að landsbyggðin hefur gríðarlega möguleika á að afla mikilla gjaldeyristekna fyrir íslenska þjóð, mundu nýtast í auknum mæli. Það mundi ekki einungis vera hagkvæmt fyrir landsbyggðina, (Forseti hringir.) það yrði hagkvæmt fyrir höfuðborgina og landið allt.