141. löggjafarþing — 34. fundur,  14. nóv. 2012.

byggðamál.

[16:08]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Viljum við hafa Ísland í byggð? Ef við segjum nei eða að okkur sé sama getum við haldið áfram að gera hlutina eins og við höfum gert. Þá getum við leyft byggðunum að fjara út eftir því hvernig kvótinn færist til. Það er nákvæmlega það sem við höfum verið að gera. Svo höfum við reynt að setja einhverja smáplástra á sárin.

Ef við segjum já þurfum við að breyta um stefnu eða öllu heldur, eins og Lilja Rafney Magnúsdóttir þingmaður, málshefjandi hér í dag, benti á, taka upp raunverulega byggðastefnu. Það er ákvörðun að styrkja og efla byggð í landinu. Ef við ætlum að taka þá ákvörðun þurfum við að fara í aðgerðir. Við þurfum að horfast í augu við að það kostar fé að halda landinu í byggð og það þarf að gera ráð fyrir því. Samgöngur þurfa að vera í lagi, tækifæri til menntunar þurfa að vera fyrir hendi og fjölbreytt atvinnutækifæri. Netið er grundvallaratriði fyrir fólk á 21. öld og forsenda fyrir fjölbreyttu atvinnulífi og menntunartækifærum um land allt. Við þurfum líka öruggt heilbrigðiskerfi um land allt sem byggir á nærþjónustu.

Mér fannst málshefjandi hitta naglann á höfuðið þegar hún nefndi bleika fílinn í stofunni, kvótakerfið. Fiskurinn er grundvöllur byggðar hringinn í kringum landið, það er bara svoleiðis. Um leið og fiskurinn fer fer fólkið. Það þarf að kalla kvótann inn og endurúthluta honum með sanngjörnum hætti.

Viljum við halda Íslandi í byggð? Ég segi já við því.