141. löggjafarþing — 34. fundur,  14. nóv. 2012.

byggðamál.

[16:15]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka þessa umræðu og hefði gjarnan viljað hafa tíma til að fara betur yfir þessi mál. Ég ætla að leyfa mér að halda því hér fram að almennt standi landsbyggðin nú hlutfallslega betur en hún gerði á löngu árabili fyrir hið margfræga hrun. Þannig er það til dæmis að atvinnuleysi eða atvinnuástand er mun betra á landsbyggðinni. Það breytir ekki hinu að tiltekin byggðarlög og svæði eiga í verulegum erfiðleikum.

Ég nefndi hér jöfnun flutningskostnaðar. Það er mál sem menn höfðu haft óralangan tíma að hrinda í framkvæmd við betri aðstæður en nú er þó búið að gera. Ég vil ekki að því sé alveg gleymt sem þó hefur verið gert.

Ef við tökum fjárfestingarnar sem fara í samgöngumálin, innviðina, uppbyggingu ferðamannastaða og sóknaráætlanir landshlutanna, allt fjármunir sem að uppistöðu til munu renna til landsbyggðarinnar, eru sennilega um 4 milljarðar kr. nýir að fara í slík verkefni á næsta ári. Það munar eitthvað um það, hlýtur að vera.

Að sjálfsögðu skiptir stefnan í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálunum miklu máli. Hér nefndi einn hv. þingmaður að landbúnaðurinn byggi við óvissu. Má ég þá minna á að nýbúið er að framlengja alla búvörusamninga um tvö ár í góðri sátt milli stjórnvalda og landbúnaðarins. Að mínu mati hefur tekist vel að verja landbúnaðinn í gegnum þessa erfiðleika með tvennum búvörusamningum sem gerðir hafa verið í góðri sátt milli aðila, fyrst 2009 og aftur núna 2012.

Tekjur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga fara nú vaxandi og hann fær á annan milljarð kr. aukalega vegna þess að tekjustofnar ríkisins eru að gefa meira af sér. Sveitarfélögin njóta þannig líka góðs af því og hafa meiri burði til að jafna út verkefnum og kostnaði á milli sín vegna þess að þau eru að fá auknar tekjur. Ég tel hins vegar að reynsla undangenginna áratuga sýni að hið almenna stoðkerfi og hlutir af því tagi sem ég hef verið að tala hér um nýtast ekki brothættustu samfélögunum sem skyldi. Það er hin nýja skilgreining Byggðastofnunar. Ég fagna því að stuðningur sé við að styðja Byggðastofnun (Forseti hringir.) og gera henni kleift að vera fullgildur þátttakandi í aðgerðum á sértækum grunni gagnvart þessum varnarsvæðum sem nú er verið að skilgreina, (Forseti hringir.) við getum þar nefnt Raufarhöfn og fleiri sem hér hefur borið á góma.