141. löggjafarþing — 34. fundur,  14. nóv. 2012.

sjúkratryggingar.

303. mál
[16:24]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er mjög dapurlegt að þetta frumvarp sé komið fram aftur. Forsaga þess er að við stofnun Sjúkratrygginga Íslands — og gengið var frá því haustið 2008 — var því frestað um eitt ár að sjúkratryggingar tækju að fullu alla samninga sem varða heilbrigðisþjónustu í landinu eins og lagt var upp með. Sjúkratryggingar Íslands voru einfaldlega stofnaðar til að hafa á einum stað alla samningagerð ríkisins. Með mikilli einföldun var það til þess að við gætum náð sem hagstæðustum samningum fyrir sjúklinga. Það er nú þannig að þetta er hagur okkar allra — það er ríkisvaldið sem greiðir fyrir þessa samninga og fyrir heilbrigðisþjónustuna að langstærstum hluta, rúmlega 80%. Það er mikil skynsemi í því að fara að dæmi nágrannalanda okkar sem hafa farið þá leið að hafa samningsgerðina á einum stað. Það þýðir að þangað safnast mesta þekkingin og reynslan. Áður en Sjúkratryggingar Íslands voru stofnaðar var þessi samningagerð í höndum sjúkratryggingadeildar Tryggingastofnunar Íslands, síðan í höndum sérsamninganefndar heilbrigðisráðherra og síðan í heilbrigðisráðuneytinu.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um það að á ýmsu gekk haustið 2008 þannig að hluta af verkefnum sjúkratrygginga var frestað um eitt ár. Svo það sé bara sagt snerist það ekki um að auka útgjöld sjúkratrygginga eða setja í þær meiri fjármuni og mannafla, þetta snerist fyrst og fremst um tilfærslu á því fólki sem að hluta er að vinna í heilbrigðisráðuneytinu og, ef ég man rétt, á Landspítalanum og hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, yfir í stofnunina þannig að við næðum þeim markmiðum sem til var ætlast. Hugmyndafræðin er einföld: Þetta gekk út á það að kostnaðargreina þjónustuna, meta faglegu þættina þannig að við værum alltaf að ná sem hagkvæmustum samningum.

Hvað þýðir það að ná sem hagkvæmustum samningum? Það þýðir að við veitum betri þjónustu. Það sem vantar í íslenska heilbrigðisþjónustu er betri skilgreining á því hvað stofnun á að gera og það vantar sömuleiðis betri mælingar á því hvað stofnun eigi að gera. Það vantar samræmdar mælingar á milli stofnana og þess vegna er umræðan um íslenska heilbrigðisþjónustu oft á tíðum alhæfukennd, og byggir á tilfinningu eða skoðunum en ekki staðreyndum.

Nú er staðan sú að núverandi ríkisstjórn er búin að fresta þessu allt kjörtímabilið. Það hefur alltaf fylgt að lengri tíma þurfi til að undirbúa þetta. Nú er komið að lokum kjörtímabilsins og enn erum við ekki á þeim stað að ríkisstjórnin treysti sér til að klára þetta verk og láta sjúkratryggingarnar taka þetta hlutverk um næstu áramót. Það eru auðvitað mjög slæmar fréttir, það eru slæmar fréttir fyrir þá sem þurfa á þjónustunni að halda.

Það er algjörlega óskiljanlegt af hverju þessu hefur verið frestað ár eftir ár. Það er sömuleiðis fullkomlega óskiljanlegt af hverju menn ætla að fresta þessu um tvö ár. Hér eru nefndar ástæður, þ.e. að hluti af þessu snúi að því að flytja eigi ákveðinn málaflokk, sem ekki er svo sem búið að ganga frá, frá ríki til sveitarfélaga. Nú veit ég ekki hvernig sú vinna stendur, en það kæmi mér verulega á óvart ef við sæjum fyrir endann á henni. Látum það liggja á milli hluta. Það breytir ekki því að þegar verið er að flytja ákveðna þjónustu frá ríki til sveitarfélaga er afskaplega mikilvægt að hún sé vel skilgreind. Það skiptir miklu máli að hún sé kostnaðargreind því að annars horfum við upp á sama vanda og upp kom þegar málefni sem tengdust geðfötluðum voru flutt yfir til sveitarfélaganna, allt í einu kom í ljós að ástandið er mjög bágborið á mörgum sviðum varðandi búsetu geðfatlaðra. Við höfum horft upp á deilur á milli aðila í fjölmiðlum undanfarið út af þeim málum.

Hvaða málaflokk sem meiningin er að flytja til sveitarfélaganna, alveg sama hver hann er, skiptir mjög miklu máli að hann sé skilgreindur og það skiptir miklu máli að það sé skýrt hvað þeir sem veita þar þjónustu eigi að gera og hver sé kostnaðurinn á bak við það. Það þarf ekkert að rökstyðja það neitt sérstaklega, það er svo augljóst.

Það snýr að hluta þessara mála, annað snýr að þeim stofnunum sem eru hjá ríkinu. Hver einasti aðili sem hefur komið að þessum málum, hvort sem um er að ræða rekstraraðila eða aðila í stjórnsýslu eða í stefnumótun, erlenda aðila sem að þessum málum hafa komið — allir komast að sömu niðurstöðunni: Það er ekki nægjanlega vel skilgreint hvað hver á að gera. Ég hélt að allir væru sammála um, sama í hvaða stjórnmálaflokki viðkomandi er, að vilja sjá meira um samninga, betur skilgreint hvað hver á að gera og hvað er greitt fyrir það.

Það að hæstv. ríkisstjórn sé búin að gefast upp á þessu verkefni — því þetta er bara uppgjöf, þetta er fullkomin uppgjöf, við höfum tekið þessa umræðu á öllum haustþingum frá því þessi ríkisstjórn tók við. Iðulega hafa komið góð orð um að klára eigi þetta verkefni, það þurfi bara eitt ár í viðbót eða lengri tíma til að klára þetta. Nú er niðurstaðan þessi: Menn eru búnir að gefast upp. Í ofanálag á að fara þá leið að fresta þessu og ekki bara um eitt ár heldur um tvö ár. Ég vil nú ætla að sú ríkisstjórn sem tekur við af þessari verði röskari í þessum málaflokki svo að við sjáum fram á að þetta mál verði klárað sem allra fyrst.

Virðulegi forseti. Sama hvaða skoðanir menn hafa í heilbrigðismálum þá hlýtur að vera samstaða um að það sé vel skilgreint hver eigi að gera hvað, hvaða skyldur eru hjá hverri stofnun og hvað á að greiða fyrir viðkomandi þjónustu. Það getur ekki verið deilumál, ég bara trúi því ekki. Þá er það spurning um leiðirnar.

Hugmyndin um Sjúkratryggingar Íslands var ekki fundin upp á Íslandi. Þetta er ekki íslensk uppfinning. Hún snýr að því að við höfum verið að skoða það sem gerist í nágrannalöndunum. Við höfum verið svo lánsöm að geta farið í smiðju Norðurlandanna sem hafa farið í þessa vegferð og gert ákveðin mistök. Við þurfum ekki að gera þau mistök vegna þess að við getum lært af mistökum þeirra. Þau eru nú komin mun lengra á veg en við, kannski fyrst og fremst vegna þess að þau fóru þá leið sem liggur að baki hugmyndinni um Sjúkratryggingar Íslands.

Virðulegi forseti. Þetta verður rætt hér í þinginu, það segir sig sjálft, og örugglega líka í hv. velferðarnefnd. Það er ekki boðlegt fyrir sjúklinga þessa lands að menn séu að gefast upp með þessum hætti.