141. löggjafarþing — 34. fundur,  14. nóv. 2012.

sjúkratryggingar.

303. mál
[16:41]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það gekk bara út á eitt að setja Sjúkratryggingar Íslands af stað: Að bæta þjónustu við sjúklinga. Svo einfalt er það. (Gripið fram í: Hefur það gerst?) Ég vona það, virðulegi forseti. Samkvæmt þeirri hugmyndafræði var biðlistum eftir augnsteinaaðgerðum til dæmis eytt vegna þess að menn fóru í þá hugmyndafræði að kostnaðargreina og gerðu samninga við þá sem gerðu það með hvað hagkvæmustum hætti. (Gripið fram í: Þeir eru enn þá með það.)

Virðulegi forseti. Ég hvet nú hæstv. ráðherra til að koma hér upp og taka umræðuna. Við skulum gera það. Það sagði enginn, og ef hæstv. ráðherra hefur haldið því fram hef ég misskilið málið í grundvallaratriðum, að stefnumótun ætti að fara til sjúkratrygginga. Hún átti aldrei að gera það. Stefnumótunin á að vera í ráðuneytinu. Þetta snýst um að vera með á einum stað þekkingu til þess að kostnaðargreina þjónustuna og gera samninga við þá aðila, eins og t.d. Landspítalann og fjölmarga aðra, sem gera hluti sem eru hvergi gerðir annars staðar. Af hverju? Til þess að nýta skattfé betur svo við getum veitt meiri þjónustu. Þetta gengur bara út á þjónustu við sjúklinga. Til þess var farið í þessa vegferð.

Það er alvarlegt ef hæstv. ráðherra kemur hér í lok kjörtímabils og hefur ekki meiri skilning á þeirri hugmyndafræði. Það er mjög alvarlegt því að þetta snýst um eitt: Þjónustu við sjúklinga.

Ég hef aldrei hitt neinn í heilbrigðisþjónustunni sem hefur ekki kallað eftir skýrari samningum og reyndar bara samningum. Það skiptir engu máli hvort það eru forustumenn Landspítalans, hjúkrunarheimila, heilsugæslunnar og hvort sem það er úti á landi, í Reykjavík eða hvar þeir eru.