141. löggjafarþing — 34. fundur,  14. nóv. 2012.

sjúkratryggingar.

303. mál
[16:47]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmann sagði að það hefði ekkert átt að kosta að stofna sjúkratryggingar á sínum tíma. Hann sat við borðið á þeim tíma sem ráðherra þegar verið var að stofna sjúkratryggingastofnun og ég tók raunar þátt í þeirri vinnu fyrir hönd Samfylkingarinnar meðal annars og átti ágæta fundi í tengslum við það og hef því skilning á því um hvað var rætt og hvaða kröfur við gerðum. Mig langar að spyrja hv. þingmann, af því að hann nefndi það ekki: Hvað var áætlað að fjölgað yrði um marga starfsmenn? Ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður muni það.

Hér voru nefndar augnsteinaaðgerðir. Það er ljóst að Sjúkratryggingar Íslands sjá um slíka samninga og marga aðra og við erum með fjölda samninga í gangi í dag. Hér erum við að ræða hvort færa eigi alla samninga afdráttarlaust frá og með 1. janúar 2013 yfir til sjúkratrygginga, þar með hjartaaðgerðir á Landspítalanum og ýmsar aðrar aðgerðir.

Mig langar líka að heyra frá hv. þingmanni hvort honum finnist ekki eðlilegt að við bíðum með að semja við einstakar stofnanir þar til við höfum gert gæða- og forsendulýsingar varðandi hjúkrunarheimilin, taka út einstakar stofnanir þar, á sama tíma og við vinnum með sveitarfélögunum að því hvaða kröfur eigi að gera.

Í þriðja lagi langar mig að velta upp hvort hv. þingmaður hafi ekki áttað sig á því að þessi framsetning á frumvarpinu núna er breytt frá því sem var áður vegna þess að ekki er tekin afstaða gegn því að gerðir verði samningar. Það er kveðið á um að ráðherra hafi heimild til að gefa út með reglugerð við hverja skuli semja og þar er tekið á því ágreiningsefni sem verið hefur á milli sjúkratrygginga og ráðuneytisins hvað núverandi lög þýða. Ef lögin taka gildi túlkar ráðuneytisfólkið, lögfræðingarnir, það þannig að það sé afdráttarlaust að allir samningar verði gerðir í gegnum sjúkratryggingar frá og með þeim degi. Sjúkratryggingar segja: Við getum ráðið því hversu hratt þetta verður innleitt. Á þessu er tekið með (Forseti hringir.) reglugerðinni. Er það ekki fullnægjandi breyting?