141. löggjafarþing — 34. fundur,  14. nóv. 2012.

sjúkratryggingar.

303. mál
[16:50]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir ágætisandsvar og ég tel að ef við ræðum þetta á þessum nótum geti það orðið grunnur að málefnalegri og góðri umræðu. Ég tel afskaplega mikilvægt að við skilgreinum hvaða þjónustu við ætlum að færa frá ríki til sveitarfélaga.

Miðað við þær sem upplýsingar sem ég fæ frá sveitarstjórnarmönnum um síðustu tilfærslu telja þeir að ekki hafi verið nógu vel vandað til verka. Ég skal viðurkenna að þetta er bara það sem ég hef heyrt í samtölum við fjölda sveitarstjórnarmanna, meðal annars bæjarstjóra og aðra. Við þekkjum það í gegnum söguna að oft hefur vantað upp á að við höfum skilgreint nógu vel hvaða þjónustu við ætlum að færa yfir. Síðan hafa staðið endalausar deilur milli ríkis og sveitarfélaga um hvað var í rauninni samið um og hvort nægilegir fjármunir hafi fylgt og svo framvegis. Ég held því að það sé lykilatriði að skilgreina þetta vel. Þeir sem hafa rekið hjúkrunarheimili hafa mjög oft, ég held bara á hverjum einasta fundi sem ég hef farið á með þeim, talað um að það sé verið að bera saman epli og appelsínur þegar kemur að þjónustunni. Þeir eru ósáttir við að ekki séu samningar í gildi og ekki skýrt hvað þeir eigi að gera. Sá þáttur skiptir því mjög miklu máli.

Hvað sjúkratryggingar varðar veit ég auðvitað að það er ekki verið að taka neitt af þeim, en hæstv. ráðherra nefndi að við værum að tala um aðgerðir á spítölum og annað slíkt, að það ætti að semja um þetta allt saman. Ég hef ekki tíma til að fara yfir það í þessu stutta andsvari, ég fer betur yfir það á eftir, en ef við skoðum hvernig þetta er á Norðurlöndunum þá er alla jafna ekki samið um hverja einustu aðgerð. Það eru vissar aðgerðir sem menn eru með en síðan er gerð kostnaðargreining á aðgerðum til að meta þær, til dæmis má gera það milli íslenskra stofnana eða þá á milli landa og stofnana þar. Ég tel að það sé afskaplega mikilvægt, en ég fer betur yfir þetta í seinna andsvari.