141. löggjafarþing — 34. fundur,  14. nóv. 2012.

sjúkratryggingar.

303. mál
[16:54]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum komin á þann stað sem ég mundi vilja hafa okkur, við erum að minnsta kosti að ræða það sem við erum sammála um. Við erum sammála um að það eigi að kostnaðargreina þjónustuna og vinna þetta eins faglega og hægt er. Ég tel þess vegna að það sé skynsamlegt að hafa þekkinguna á einum stað og það sem snýr að því sem við getum kallað kaupendahlutverkinu, alla vega sem snýr að þeim sem greiða þetta sem eru fulltrúar skattgreiðenda. Þess vegna var ákveðið að setja Sjúkratryggingar Íslands á fót, til að hafa þekkinguna á einum stað.

Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að á mörgum stöðum er mjög erfitt að greina á milli þjónustunnar. Ég hef ekki verið neinn sérstakur talsmaður þess að færa málefni aldraðra yfir og hefði viljað sjá góð rök fyrir því. En vegna þess að aðstæður eru mismunandi á milli landshluta, sveitarfélaga og svo framvegis tel ég að það verði að fara svolítið fjölbreyttar leiðir í þessu.

Ég held að það sé mjög æskilegt að fara þá leið sem farin var á Höfn, Akureyri og öðrum stöðum. Ég vildi sjá það gerast á fleiri stöðum að sveitarfélög taki yfir heilbrigðisþjónustu og samnýti við aðra þjónustu og samnýting gæti verið jafnvel meiri en verið hefur fram til þessa. Það fyndist mér æskilegt. Aðstæður er hins vegar mjög mismunandi hjá sveitarfélögum í landinu.

Virðulegi forseti. Málið er að það var farið af stað í þessa vegferð 2008 og síðan hefur þessari yfirfærslu verið frestað ár eftir ár. Nú er komið 2012 og þá ætla menn að fresta þessu til ársins 2015, að ég held. Það er bara ekki gott fyrir þjónustuna. Við erum sammála um að það þurfi að kostnaðargreina. Það er af því að við erum að hugsa um þjónustuna. Við erum ekki að greina kostnaðinn, hvort sem hann er á spítölum eða annars staðar, bara af því að við erum svo forvitin um tölur. (Forseti hringir.) Þetta snýst um að bæta þjónustuna.