141. löggjafarþing — 34. fundur,  14. nóv. 2012.

sjúkratryggingar.

303. mál
[16:56]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar til að blanda mér aðeins í þessa umræðu þó að seint sé, ég vona að hún lengist ekki mjög mikið við það. Ég er hingað komin til þess að vekja athygli á þeim skýru fyrirvörum sem minn flokkur, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, hafði og hefur við löggjöfina um Sjúkratryggingar Íslands.

Okkar grunnstefna er sú að heilbrigðisþjónustan skuli rekin af sameiginlegum sjóðum okkar allra, þ.e. fyrir skattfé, og að allir fái notið hennar eftir þörfum án tillits til fjárhagsstöðu. Þetta er það sem kallað hefur verið norræna módelið í heilbrigðisþjónustu. Það er allt annars eðlis en ameríska módelið sem er á hinum endanum þar sem menn þurfa að kaupa sér læknisþjónustu af eigin aflafé eða með tryggingum, sem atvinnurekendur í flestum tilfellum borga, eða vera án hennar ella.

Því er það nú svo að milljónir manna og sérstaklega barna í Bandaríkjunum eru án trygginga þegar kemur að heilbrigðisþjónustu, en sú er ekki raunin þar sem norræna módelið er lagt til grundvallar.

Það er áhugavert að taka á ný þátt í umræðum um þessi mál og ég ætla sannarlega að vona að heilbrigðisþjónustan og skipulag hennar komi oftar á dagskrá þingsins. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra af þessu tilefni um Sjúkratryggingar Íslands. Tilefnið er orðaskipti hans og hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar sem fór á sínum tíma hér í gegn með lögin um sjúkratryggingar á afskaplega óvenjulegan hátt, svo vægt sé til orða tekið, rétt fyrir hrun og vakti miklar deilur, bæði aðferðafræðin, vinnubrögðin og niðurstaðan. Það sem hann er að verja hér er nokkuð sem minn flokkur greiddi atkvæði gegn og styður ekki. Studdi ekki og styður ekki.

Mig langar til þess að spyrja hæstv. ráðherra hvort hugmyndir séu uppi um að kanna hver reynslan er af stofnun og rekstri Sjúkratrygginga Íslands, þeirrar nýskipunar í heilbrigðisþjónustu sem taka átti upp og sótt var fyrirmynd til Svíþjóðar og Bretlands, þessa kaup- og söluhugsunarháttar sem átti að yfirskyggja allt. Í lögunum er meira að segja tekið fram að ekki megi semja við stéttarfélög eins og Ljósmæðrafélag Íslands. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hver eru áhrifin á Tryggingastofnun ríkisins? Þeirri stofnun var skipt upp og búnar til tvær stofnanir í stað einnar. Ég spyr í ljósi þess að nú hafa félags- og tryggingamálaráðuneytið sem þá hét svo og heilbrigðisráðuneytið sem þá hét svo verið sameinuð í eitt ráðuneyti velferðarmála.

Ég heyrði ekki að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson svaraði spurningu hæstv. ráðherra um það hversu margir starfsmenn hefðu átt að vinna hjá Sjúkratryggingum Íslands. Ég man að aðeins á skrifstofunni í yfirstjórninni átti að fjölga um 14 manns, haustið sem við ræddum þetta í þáverandi hv. heilbrigðisnefnd. Mig langar því til að spyrja hæstv. velferðarráðherra hvaða áhrif þessi nýja stofnun hefur haft og hvort einhverjar nýjar hugmyndir séu uppi um að samræma eða sameina einhverja af þeim þáttum sem nú eru hjá stofnununum tveimur. Ég er ekki að spyrja hvort til standi að ganga skrefið alla leið til baka, ég hygg að það sé ekki hægt, en ég tel hins vegar mjög nauðsynlegt að skoða í þessum efnum eins og öllum öðrum í ríkisrekstrinum tækifæri til samlegðar og sameiningar, til að bæta þjónustu og spara fé.

Mig langar líka til að spyrja hæstv. ráðherra hvort einhvers staðar hafi verið höfð uppi sú skoðun að athuga ætti hvort stofnun Sjúkratrygginga Íslands hafi leitt til sparnaðar í kerfinu og þá hvar og fyrir hvern. Hafa þeir samningar sem Sjúkratryggingar Íslands hafa gert verið árangursmetnir á einhvern hátt? Hafa þeir skilað einhverju öðru en síhækkandi kröfum um fjárveitingar frá Alþingi? Það sjáum við sem gleggst í fjárauka- og fjárlagatillögum til sérfræðiþjónustu vegna þess að það þarf líka að árangursmeta þá samninga sem Sjúkratryggingar Íslands hafa ekki gert. Ég spyr um kostnað af því, ekki aðeins fyrir ríkissjóð heldur ekki síður fyrir þá sjúklinga á höfuðborgarsvæðinu sem eru þúsundum saman án heilsugæslulæknis, án heimilislæknis og leita beint til sérfræðilækna. Þar hafa ekki verið samningar í gildi í eitt og hálft ár, hygg ég. Á þeim tíma hefur engin þörf verið fyrir sérgreinalækna að fara á samning vegna þess að þeir hafa tekið sér launahækkun úr vasa sjúklinga sinna með því að krefja þá um sérstakt álag á komugjöldin sem nemur allt að 3 þús. kr. í heimsókn hjá hverjum sérgreinalækni. Þar er ekki spurt hvort menn séu öryrkjar eða hvort þeir séu með mörg börn á heimili.

Herra forseti. Þetta eru mikilvæg mál sem við þurfum svo sannarlega að ræða miklu frekar. Ég hef orðið fyrir verulegum vonbrigðum með að ekki hafi enn komið fram frumvarp um breytingu á heilbrigðisþjónustunni í þá veru sem allir þingmenn sem tjáðu sig hér fyrir tveimur til þremur árum voru sammála um að taka upp, en það er valkvætt tilvísanakerfi sem mundi að mínu mati leiða til verulegs sparnaðar og bættrar þjónustu í heilbrigðismálum á Íslandi. Ég hvet hæstv. velferðarráðherra til að taka til hendinni í þeim garði.