141. löggjafarþing — 34. fundur,  14. nóv. 2012.

sjúkratryggingar.

303. mál
[17:04]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyri að hér er kannski komin skýringin á þessum sífelldu töfum því að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir kemur hingað upp og segir að hún hafi ekki stutt og styðji ekki enn Sjúkratryggingar Íslands.

Virðulegi forseti. Við munum, af því að hæstv. ráðherra …

(Forseti (KLM): Forseti þarf að gera aðvart um að nota ekki farsíma í þingsal.)

Ég var ekki að nota neinn farsíma.

(Forseti (KLM): Enda var orðum að sjálfsögðu ekki beint til hans heldur til annars, en ég bið hv. þingmann að halda áfram ræðu sinni og tíma verður bætt við vegna þessara tafa.)

Getur virðulegur forseti kannski bent mér á hvar ég var í ræðunni? Það er ekki svo. Ég þarf þá að rifja það upp. Hér hefur komið skýrt fram — ekki fæ ég neinn viðbótartíma, virðulegi forseti, á klukkuna. Verður örugglega séð til þess?

Virðulegur forseti. Hér kom skýrt fram að hv. þingmaður Vinstri grænna studdi ekki og styður ekki enn Sjúkratryggingar Íslands eða hugmyndafræðina á bak við þær. Við munum atganginn hjá hv. þingmanni þegar hún var ráðherra gagnvart þeirri stofnun og forustunni þar. Það var mjög alvarlegt en ég ætla ekki að fara út í það hér og heldur ekki útleggingar hennar á heilbrigðiskerfum almennt.

Ég vildi spyrja hv. þingmann að tvennu: Telur hv. þingmaður að ástæðan fyrir því að ekki náðust samningar — og nú hefur hæstv. ríkisstjórn misst sérfræðinga af samningi sem er alvarlegt — sé vegna Sjúkratrygginga Íslands og að það sé út af Sjúkratryggingum sem sérfræðingar fóru af samningi? Trúir hv. þingmaður því virkilega? Hv. þingmaður getur þá kannski útskýrt fyrir okkur af hverju tannlæknar fóru af samningi fyrir mörgum árum því að þá var ekki búið að stofna Sjúkratryggingar Íslands.

Síðan hitt, af því að hér er talað um valkvætt tilvísanakerfi, … (Forseti hringir.)

Hvað nú, virðulegur forseti?

(Forseti (KLM): Ja, nú hefur forseti bætt við þeim tíma sem ræðumaður varð fyrir truflun og þessum andsvaratíma hv. þingmanns er því lokið að þessu sinni.)

Já, ég vil bara spyrja: Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur, ef farið verður út í tilvísanakerfi, af þeim stóra vanda í heilbrigðiskerfinu hvað eru fáir heimilislæknar? (Forseti hringir.)