141. löggjafarþing — 34. fundur,  14. nóv. 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

133. mál
[17:20]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Róbert Marshall) (U):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um Farsýsluna, stjórnsýslustofnun samgöngumála. Þetta er annað tveggja mála sem ég mun mæla hér fyrir, ég mæli fyrir öðru nefndaráliti sem er næsti dagskrárliður. Þessi tvö mál snúast um sameiningu samgöngustofnana og tilbúning tveggja nýrra stofnana, sem er annars vegar Farsýslan og hins vegar Vegagerðin. Þær eru reistar á grunni núverandi samgöngustofnana sem eru Vegagerðin, Siglingastofnun, Umferðarstofa og Flugmálastjórn Íslands. Annars vegar er um að ræða framkvæmdastofnun, sem er Vegagerðin, eins og ég sagði hér áðan, og stjórnsýslustofnun, sem er Farsýslan, hefur hlotið það nafn.

Við 2. umr. komu fram þau sjónarmið, og reyndar einnig í nefndinni áður en málið fór til 2. umr., hvort tímafrestir sem lagafrumvörpin gerðu ráð fyrir væru nægir. Gert var ráð fyrir að sameiningin gengi í gegn um áramót.

Við umfjöllun nefndarinnar eftir 2. umr. var ákveðið að gera þá breytingu að í stað orðsins „janúar“ í 1. og 2. mgr. 20. gr. komi: „júlí“. Þannig að þessu var seinkað um hálft ár. Færð voru rök fyrir því að meira svigrúm þyrfti til þessara breytinga áður en nýjar stofnanir tækju til starfa.

Þrátt fyrir að þetta hafi verið niðurstaða nefndarinnar vil ég líka geta þess að óþreyja er innan þessara stofnana eftir því að þessi mál verði afgreidd af eða á, tekin til afgreiðslu hér í þinginu. Þannig bárust þingmönnum í dag áskoranir frá meiri hluta starfsmanna Siglingastofnunar þar sem þeir taka í sjálfu sér ekki efnislega afstöðu til málsins heldur hvetja fyrst og fremst til þess að það verði afgreitt. Í áliti þeirra kemur fram að þeir vilji frekar, ef ákveðið verði að ráðast í þessar breytingar, að það taki gildi strax, þ.e. strax í janúar.

Í ljósi þeirra raka sem fram komu í umfjöllun í nefndinni telur nefndin engu að síður betra að hafa borð fyrir báru í þessum efnum og tímarammann rýmri. Það er það sem sú breytingartillaga sem ég mæli fyrir gengur út á. Undir hana rita auk framsögumanns hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Arna Lára Jónsdóttir, Mörður Árnason og Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir.