141. löggjafarþing — 34. fundur,  14. nóv. 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

133. mál
[17:31]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar er enginn heilagur dómur. Þar eru reyndar líka ýmsar spurningar og ekki alveg rétt að fara í algjört skjól við þá úttekt þegar fjallað er um það mál.

Það er lenska hjá sumum að koma til verka á staði og þykjast ætla að finna upp nýtt hjól. Hjólið er einfalt form og það þarf fyrst og fremst að snúast eðlilega. En þá koma bjagaðar hugmyndir. Það er rangt hjá hv. framsögumanni nefndarálitsins að gætt hafi verið allra sjónarmiða í athugun á málinu vegna þess að hugmyndin um þetta stjórnsýslufyrirkomulag, að sjóða saman ákveðna eftirlitsþætti og öryggisþætti sem varða flugrekstur, siglingar og umferð, er sænskættuð og smíðuð í Svíþjóð.

Síðan tóku Finnar þennan anga upp og Danir hafa þetta fyrirkomulag að hluta en þó með allt öðrum hætti. Norðmenn hafa haft sama fyrirkomulag og Íslendingar enda eru þeir að öllu jöfnu skynsamari en hinar þjóðirnar í flestu er lýtur að verksviti og reynslu.

Þeir sem komu þessu kerfi á og tóku það upp eru núna að breyta því, þeir eru núna að fella það niður og tálga það til baka. Þeir sem eru á meirihlutaálitinu virðast ekki hafa neina hugmynd um það og ekki vilja vita neitt um hver reynslan er af framgangi þessa þáttar. Það er synd vegna þess að þarna er verið að skapa hættu og vandamál sem kosta mun mikið fyrir íslenskt þjóðfélag þegar upp er staðið.

Stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar byggir fyrst og fremst á því að það kunni að vera hagkvæmara peningalega séð að sinna þessum þætti með því að setja saman öryggisnefnd sjómanna, flugsins og umferðar og allra þessara þátta sem eru auðvitað mjög viðamikið svið. En það er alveg ljóst og reynslan hefur sýnt það á fáum árum í Skandinavíu að það hefur farið úr böndunum. Það er reyndar oft þannig að þegar gera á snjalla hluti sem byggst hafa upp á reynslu fara böndin fljótt að losna. Í Svíþjóð og Finnlandi hefur það fyrst og fremst þýtt að það hefur kostað miklu meiri peninga vegna þess að það hefur kallað á stórkostlega aukningu starfsmanna sem engin þörf var fyrir. Við leggjum áherslu á það á Íslandi að gera hlutina skynsamlega.

Öryggismálanefnd í fluginu er mjög sérhæfð og hún hefur náð miklum árangri á Íslandi vegna þess að byggst hefur upp trúnaður í þessum efnum milli þeirra sem sjá um eftirlitið og öryggisþáttinn og flugmannanna sjálfra.

Öryggismálanefnd sjómanna varðandi fiskiskipin er auðvitað sérhæfð að nokkru leyti en samt er það miklu þrengra svið en um er að ræða í fluginu. Við vitum alveg á hverju öryggi í umferðinni byggir, það byggir á ákveðnum þáttum sem nánast hvert mannsbarn á landinu þekkir. Þessu er ætlað að steypa saman í einn pott. Sérhæfingin á að detta út og ekki er tryggt að það muni skila þeim árangri sem til var ætlast í framgangi málsins.

Flug- og ferðaþjónusta er þriðja stærsta útflutningsgrein Íslendinga. Helmingurinn af þeirri þjónustu fer í gegnum Flugmálastjórn og höfuðstöðvar í flugrekstri þannig að það er mjög öflug útflutningsgrein. Ef tálga á af þeim þætti án þess að tryggja sérhæfinguna þýðir það einfaldlega að samkeppnisstaðan verður lakari og það hefur í för með sér meiri kostnað fyrir þjóðfélagið í heild. Það er vandinn við frumvarpið.

Það er svo einkennilegt að margir nefndarmenn í hv. samgöngu- og umhverfisnefnd nenna ekki að setja sig inn í þessi mál, og nú tala ég bara mannamál. Það á ekki við um þá sem eru í minni hlutanum, það er alveg klárt mál. En þarna koma einhverjar tilskipanir sem eru því miður að fjara út vegna reynslu annarra þjóða af þeim. Danir tóku það upp þegar þeir gerðu breytingar sem voru í þessum dúr að þeir létu sérhæfinguna halda sér. Sérstök stofnun sinnir fluginu, sérstök stofnun sinnir siglingum og sérstök stofnun sinnir umferðinni, þannig að sérhæfingin er varin og hún nýtist vel. Þar ganga hlutirnir stórslysalaust.

Í Svíþjóð lullar þetta áfram án þess að miklar deilur séu um fyrirkomulagið en þó eru deilur innan borðs vegna þess að þrátt fyrir að Svíar séu þægastir allra þjóða Evrópu gagnvart embættiskerfinu hefur þetta sýnt sig að vera leiðitamt fyrirkomulag og ekki trúverðugt vegna þess að sérhæfing hefur minnkað. Það skiptir miklu máli að sérhæfingin haldi velli og sé kveikjan að því að ná miklum árangri.

Í Finnlandi er verið að stokka allt þetta fyrirkomulag upp núna. Og svo erum við að taka það upp samkvæmt finnskum og sænskum sið. Bíddu, hvaða vinnubrögð eru þetta? Af hverju lærum við ekki af reynslunni hjá löndum sem sinna alþjóðaþjónustu eins og við en fóru út af sporinu þegar þær reyndu að gera hlutina hagkvæmari? Það var virðingarvert en það reyndist ekki rétta niðurstaðan. Þetta fyrirkomulag gengur ekki upp og þess vegna eru menn að draga í land og breyta því á ný þannig að sérhæfð þjónusta sé á hverju sviði, aðskilin í flugi, siglingum og umferð. Það er einfaldur sannleikur, einfaldar staðreyndir. Af hverju eigum við þá að hleypa þessu í gegn án þess að tryggja ákveðna hluti?

Það er ekki tryggt að sérstök verkaskipting eigi að vera innan Farsýslunnar, það er ekkert tryggt um það. Gefið hefur verið í skyn að kannski verði reynt að gera það en það er ekki í hendi, það er í skógi. Þessir hlutir þurfa að vera á hreinu til þess að hægt sé að sigla svona breytingum áfram en því miður er það nú svo — og ekkert því miður, það er reynsla margra forsvarsmanna í flugstjórnun á Íslandi, bæði hjá opinberum aðilum, hjá einkarekstrinum, hjá flugmönnum, þeir eru mjög tortryggnir í garð þess fyrirkomulags sem á að innleiða.

Hv. framsögumaður nefndarálits meiri hlutans sagði að tími væri kominn til að Alþingi Íslendinga tæki af skarið. Ef hrossakjöt er hálfsoðið þarf það að sjóða lengur. Menn taka ekkert af skarið og svikka því upp úr pottinum, það þarf að sjóða lengur og það þarf að vinna þetta mál betur þannig að hnýttir séu upp varasamir og vitlausir endar í því, virðulegi forseti.