141. löggjafarþing — 34. fundur,  14. nóv. 2012.

stjórn fiskveiða.

206. mál
[18:19]
Horfa

Flm. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni álit hennar á frumvarpinu.

Það er rétt að fram komi og sé ítrekað að það eru ekki sveitarfélögin sem úthluta aflaheimildum. Aflaheimildir koma í hlut hvers sveitarfélags í samræmi við það sem þær voru áður en framsalið var gefið frjálst árið 1991. Þeim er úthlutað sínum hluta í kvóta hvers fiskveiðiárs af Hafrannsóknastofnuninni eða ráðuneytinu. Sveitarfélögunum er svo skylt að setja þær heimildir á uppboð, þannig að við losnum við þann djöful að draga að sveitarstjórnir úthluti aflaheimildum í sínu sveitarfélagi. Þeim er einfaldlega skylt að setja þær á uppboð, uppboðin verða strúktúreruð með hætti að tryggt sé að nógu margir fái aflaheimildir — það eru margvíslegar tegundir til af uppboðum — og það verði tryggt að einn stór aðili nái ekki að kaupa til sín allar aflaheimildirnar, heldur verði þær flokkaðar eftir ákveðnu kerfi og boðnar upp þannig. Menn geti þá látið mismunandi sjónarmið ráða ferðinni, annaðhvort að fá sem hæsta krónutölu eða að sem flestir fái heimildir. Það er uppboðstækni sem menn þurfa að kynna sér betur og innleiða hér, en hún er notuð til dæmis við útboð á ríkisskuldabréfum hjá fjármálaráðuneytinu, þetta eru því þekktar aðferðir.

Það er mjög sterk byggðatenging í frumvarpinu og það er mjög sterk jafnræðis- og atvinnufrelsistenging í því. Það eru þau atriði sem skipta mestu máli í greininni á Íslandi þessa stundina eða þessi árin. Vonandi fá þau framgang.