141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

afnám gjaldeyrishafta.

[10:32]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég er þeirrar skoðunar að ekkert eitt mál geti skipt lífskjörin í landinu jafnmiklu og ef vel tekst til við afnám haftanna og stýringu á útflæði þess gjaldeyris sem þrýstingur er á um að greiða út úr landinu. Ef það mistekst hins vegar er voðinn vís. Þá getur gengi íslensku krónunnar verið í fullkomnu uppnámi og þar með eru miklar líkur á aukinni verðbólgu og lífskjararýrnun á Íslandi svo um munar. Þess vegna skiptir gríðarlega miklu máli að þingið fylgist vel með þeim aðgerðum sem nú eru í undirbúningi og fjallað er um af og til í fréttum af samningum við slit bankanna, nauðasamningum, og samhliða því aðgerðum sem stýrt er úr Seðlabankanum.

Í morgun var sagt frá því í Viðskiptablaðinu að gamli Kaupþingsbankinn gerði ráð fyrir að ljúka nauðasamningum núna í desember eða jafnvel í janúar. Samkvæmt því gerir slitastjórn bankans ráð fyrir því að komnar verði reglur um útgreiðslu erlends gjaldeyris, en það eru einmitt þær reglur sem staðið hafa í vegi fyrir að hægt væri að ljúka nauðasamningunum. Hér eru svo stór mál undir, svo háar fjárhæðir að það getur varðað miklu um hvernig þróunin verður í íslenska hagkerfinu, eins og ég hef rakið hér. Þess vegna er það skoðun mín að það sé algerlega óásættanlegt að þessi mál séu til umræðu og samninga án þess að þingið komi þar að. Ég vil bera það undir hæstv. forsætisráðherra hvort henni þyki eðlilegt að um þá risastóru hagsmuni okkar Íslendinga sé samið án þess að þingið hafi þar hönd í bagga eða fái að eiga síðasta orðið.

Ég minni á að þegar við vorum með Icesave-samningana til umfjöllunar á sínum tíma, árið 2009, var það meðal annars á grundvelli upplýsinga úr Seðlabankanum sem spáðu því að án Icesave-skuldbindingarinnar yrði hrein skuldastaða við útlönd um 700 milljarðar á árinu 2012, en nú segja nýjustu tölur að þeir hafi líklega vanmetið það um svona (Forseti hringir.) 700–900 milljarða. Það þarf að taka allt með í reikninginn þegar við horfum á þær aðgerðir sem skipta okkur svona miklu og ég hef minnst hér á.