141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

afnám gjaldeyrishafta.

[10:34]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er sammála því sem fram kemur í máli hv. þingmanns hve mikilvægt það er að skynsamlega sé farið í afnám haftanna og útgreiðslur úr þrotabúinu. Það eru mjög stór mál sem hafa mikil áhrif á efnahagsmálin og skiptir miklu hvernig á þeim er haldið.

Ég held að við höfum öll tök á málinu. Seðlabankinn er með regluvaldið varðandi útstreymi (Gripið fram í.) og ætti því að geta stjórnað því hvernig útstreymi vegna uppgjörs bankanna verður háttað. Hann setur reglurnar og við höfum fjallað um málið í ráðherranefnd um efnahagsmál síðast í gær. Seðlabankinn bíður eftir því að nauðasamningar klárist áður en nokkuð gerist í því máli. Seðlabankinn mun ekki setja reglur um útstreymi fyrr en það liggur fyrir. Ég held því að Seðlabankinn hafi fullt vald á stöðunni og muni gæta þess að útstreymið hafi ekki neikvæð áhrif á stöðugleika og gæta þjóðhagsvarúðar.

Nú er unnið að því á vegum fjármálaráðuneytisins að meta áhrifin af því að greiða út úr þrotabúum, þ.e. hvaða áhrif það hefur á fjármálastöðugleikann, svo dæmi séu tekin og auðvitað metur Seðlabankinn það líka. Ég tel ekkert því til fyrirstöðu að hv. efnahagsnefnd sé upplýst um stöðu mála og fái reglulegar upplýsingar um hver staða þeirra er. Ég get því vel tekið undir það.

Það er mikilvægt að fara varlega í þessu máli, ekki síst þegar talað er um að krónuvæða erlendar eignir sem gætu haft alvarleg áhrif á efnahagsmálin og á traust umheimsins á Íslandi. En ég tek undir að það (Forseti hringir.) þarf að finna því farveg að þingið fái reglulega upplýsingar um stöðu mála og hvernig þau ganga fyrir sig.