141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

afnám gjaldeyrishafta.

[10:38]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að ég hef fullt traust á því að Seðlabankinn haldi vel utan um málið. Það er ekki einn maður sem gerir það heldur fylgjast ráðuneytin, ekki síst efnahagsráðuneytið og fjármálaráðuneytið, mjög vel með þessum málum og eins ráðuneyti bankamála. Ég held að hv. þingmaður ætti að muna eftir því að lagafrumvarpið sem samþykkt var á Alþingi í mars síðastliðnum sem fól í sér að undanþága þrotabúa gömlu bankanna sem þeir höfðu í lögum um gjaldeyrismál væri afnumin. Sjálfstæðismenn voru á móti því en einmitt þau lög sem þar voru sett gera okkur kleift að hafa full tök á þessu máli og útgreiðsluferlið er háð reglum sem Seðlabankinn mun setja. Það hefði ekki verið hægt ef við hefðum ekki sett þau lög á sínum tíma sem sjálfstæðismenn voru á móti. Það er þá alveg tímabært að sjálfstæðismenn hafi áhyggjur af málinu (Forseti hringir.) en ég fullyrði að vel er haldið utan um það og það er sjálfsagt að þingið fái upplýsingar um það. Ef málið kallar einhvers staðar á lagabreytingar hefur þingið auðvitað fulla aðkomu að því.