141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

nauðasamningar bankanna.

[10:40]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að við séum öll sammála um það hér inni að hér er um gríðarlega mikið og stórt hagsmunamál fyrir íslenska ríkið að ræða og skiptir mjög miklu máli að vel sé fylgst með því vegna fjármálastöðugleikans í landinu og mikilvægis þess að viðhalda honum. En það er mikilvægt að hafa í huga að nauðasamningurinn er hluti af slitameðferð sem tekur mið af lögum um gjaldþrotaskipti og eftir atvikum lögum um fjármálafyrirtæki þar sem um þrotabú fjármálafyrirtækja er að ræða. Seðlabankinn hefur í raun enga aðkomu að því ferli að öðru leyti en sem kröfuhafi í þrotabúinu.

Það liggur hins vegar í augum uppi að framkvæmd nauðasamnings, þegar honum hefur verið komið á, er háð þeim lögum og reglum sem gilda í samfélaginu. Þannig má ætla að gengið sé úr skugga um það af þar til bærum aðilum hvort nauðasamningurinn uppfylli ákvæði þeirra laga sem hann snertir, eins og til dæmis ákvæði laga um gjaldeyrismál og reglur Seðlabankans sem lúta að fjármagnshöftum.

Þess vegna hefur Seðlabankinn mjög mikið um það að segja með hvaða hætti útgreiðslur úr þrotabúum fara fram vegna þess að það er verkefni hans að tryggja fjármálastöðugleika í landinu. Það er líka verkefni hans að tryggja gjaldeyrisgreiðslujöfnuð þannig að það er algerlega klárt að sá hluti nauðasamninganna lýtur algjörlega reglum Seðlabankans og Seðlabankinn hefur á því fulla stjórn.