141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

stefna ASÍ vegna skattlagningar lífeyrisréttinda.

[10:51]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég skal segja það alveg skýrt þannig að það fari ekki á milli mála að í desember 2010 var samþykkt viljayfirlýsing um hvernig staðið yrði að fjármögnun á 18 milljarða vaxtaniðurgreiðslum sem ríkið, lífeyrissjóðirnir og bankarnir áttu að taka þátt í. Það er spurning hver er að hlaupa frá samkomulagi í því máli þegar ríkið hefur fallið frá 4 milljörðum sem áttu að vera hlutur lífeyrissjóðanna í þessu, þ.e. 6, þannig að 2 standa eftir. (Gripið fram í.) Það er það sem við buðum ASÍ og lífeyrissjóðunum að gera.

Varðandi það að þetta hafi áhrif á jöfnun lífeyrisgreiðslna kom fram í þessu samkomulagi og í bréfum sem fóru á milli að það sem hallaði á jöfnun lífeyrisgreiðslna á almennu lífeyrissjóðina, samanborið við þá opinberu í þessum greiðslum, yrði tekið með inn í heildarmyndina sem verið er að skoða þar sem verið er að skoða almenna jöfnun á lífeyrisréttindum.

Mér finnst því ASÍ ganga ansi langt með því að (Forseti hringir.) ætla sér að fara í mál við ríkið út af þessu þegar ríkið hefur staðið svona að málum sem raun ber vitni þannig að eftir stendur aðeins lítill hluti af því sem lífeyrissjóðirnir áttu að greiða. (Forseti hringir.) Þetta er það sama og með lánsveðin sem við getum ekki gengið frá út af því að lífeyrissjóðirnir þverskallast í því máli.