141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

viðræður við kröfuhafa gömlu bankanna.

[11:07]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Ég vil minna frú forseta á mikilvægi þess að þinginu sé gert kleift að rækja eftirlitshlutverk sitt. Áðan horfði hæstv. forseti upp á tvo hæstv. ráðherra lýsa því yfir að gríðarlega mikilvægt væri að vel væri fylgst með viðræðum við kröfuhafa gömlu bankanna enda snerust þær viðræður um hagsmuni upp á mörg hundruð milljarða.

Á sama tíma gátu ráðherrarnir ekki veitt nein svör eða vildu það ekki. Ekki var hægt að fá svar við því hvort viðræður við kröfuhafa bankanna standi yfir höfuð yfir, hverjir standi í slíkum viðræðum, ef þær standa yfir, eða hver hafi umboð til slíkra viðræðna. Hér er um að ræða hagsmuni upp á mörg hundruð milljarða og hæstv. ráðherrar vita ekki eða vilja ekki upplýsa um hvort viðræður standi yfir eða á vegum hvers.

Því hvet ég hæstv. forseta til að fylgja málinu eftir og gera þinginu kleift að rækja eftirlitshlutverk sitt. Ég hef þegar beðið um sérstaka umræðu um stöðu þjóðarbúsins sem kemst vonandi á dagskrá sem fyrst. Hvað sem því líður hvet ég virðulegan forseta til að fylgja málinu vel eftir.