141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

skipulögð glæpastarfsemi og staða lögreglunnar.

[11:20]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Framsóknarmenn hafa lagt mjög mikla áherslu á öryggi borgaranna og flutt hér mál í því sambandi, m.a. um að það beri að gera löggæsluáætlun fyrir okkur. Það var samþykkt í þinginu að það beri að koma á forvirkum rannsóknarheimildum og banna skipulagða glæpastarfsemi, þ.e. félagsskapinn, á grundvelli ákvæða í stjórnarskrá. Þetta eru allt mál sem þingið hefur verið að skoða og vonandi verða þau öll samþykkt.

Ég er sammála því sem kom fram hjá hæstv. ráðherra, við lítum á lögregluna sem hluta af velferðarkerfi okkar. Við viljum að fólk geti búið við öryggi. En hver er staðan í dag? Eftir hrun höfum við því miður orðið að forgangsraða og skera niður. Það er rétt. Það er búið að skera niður hjá lögreglunni um 0,5% sem er reyndar minna en hjá mörgum öðrum en þó gríðarlega mikill niðurskurður. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra út í tvær tölur og vil fá þær staðfestar hjá honum ef hann treystir sér til að staðfesta þær: Er það rétt að búið sé að skera lögregluna niður frá hruni um 2,8 milljarða að núvirði? Er það rétt? Þetta er önnur talan. Hin talan er: Er það rétt að við höfum misst um 80 lögreglumenn úr okkar lögregluliði vegna niðurskurðar?

Mér finnst mjög mikilvægt að ráðherra staðfesti þessar tölur vegna þess að hér er hæstv. ráðherra að hæla sér af því að við höfum sett 100 millj. kr. í aðgerðir gegn skipulagðri glæpastarfsemi alveg sérstaklega. Það er ágætt að skoða þá tölu í ljósi þess að að búið er að skera niður á sama tíma um 2,8 milljarða. Og það er rétt að þingið komi að því máli og muni halda áfram að reyna að styðja hæstv. ráðherra í því að fá meira fjármagn í lögregluna.

Það verður að setja heildarpott núna með aukafjárveitingu við 2. umr. fjárlaga, í versta falli við 3. umr., upp á nokkur hundruð milljónir króna þannig að ráðherra geti deilt út fjármagni þar sem eldurinn brennur heitast í lögregluliði landsins.