141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

skipulögð glæpastarfsemi og staða lögreglunnar.

[11:22]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ég vakti athygli á Alþingi í gær á þeim bráðavanda sem blasir við einstökum lögregluembættum á landsbyggðinni og að við honum verði að bregðast núna við fjárlagagerðina. Ég nefndi það sama og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir áðan, með óskiptum potti upp á nokkur hundruð milljónir króna við fjárlagagerðina núna sem innanríkisráðuneytið deilir út til þessara lögregluembætta til að koma í veg fyrir að það verði enn frekari fækkun í fámennu liði.

Þetta er rækilega staðfest til dæmis í frétt í Morgunblaðinu í dag um það sem blasir við sýslumannsembættinu á Suðurlandi ef embættið fær ekki aðstoð til að greiða niður uppsafnaðan halla. Þetta ítreka ég nú við þessa umræðu hér. Í allsherjar- og menntamálanefnd í vetur og í starfi mínu sem formaður hennar hafa komið fram þungar og ítrekaðar áskoranir á okkar nefndarmenn og alþingismenn. Ég get fullyrt að það er einhugur í nefndinni um að það verði að bregðast við þessu núna til að koma til móts við stöðuna og þann bráðavanda sem blasir við.

Fjárskortur lögreglunnar hefur sérstaklega leitt til fækkunar í þeim lögregluliðum víða um land sem hvað fámennust eru. Vegna fækkunar hefur lögreglan forgangsraðað verkefnunum þannig að brýn verkefni eru stundum látin sitja á hakanum og það þurfum að koma í veg fyrir að haldi áfram að gerast. Jafnframt þarf að gera þriggja ára framkvæmdaáætlun um eflingu lögreglunnar svo við getum tekið ákvörðun á grundvelli þeirra þegar til framtíðar er litið. Forgangsatriðið er þó að fjölga almennum lögreglumönnum sem annast útköll og almennt eftirlit. Á undangengnum árum hafa komið fram tölur um fækkun í lögregluliði á landsvísu. Til að halda í horfinu og koma í veg fyrir frekari fækkun og að þau fámennustu geti bætt við starfslið sitt þarf að koma til aðgerð núna á fjárlögum til að bregðast við bráðavandanum. Það er ánægjulegt að það komi fram stuðningur við þessi sjónarmið í mörgum flokkum, eins og komið hefur fram í nefndinni og umræðum þar á síðustu dögum.