141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

skipulögð glæpastarfsemi og staða lögreglunnar.

[11:25]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Hér er til umræðu skipulögð glæpastarfsemi og mig langar að benda á tvær fréttir frá 6. mars á þessu ári. Í annarri, á vef Ríkisútvarpsins, kemur fram að lögreglan hafi sérstakar gætur á 11 gengjum sem talið er að tengist skipulagðri glæpastarfsemi og að í þeim séu 89 meðlimir. Það er fullkomlega vitað hverjir eru í þessum gengjum. Í hinni fréttinni, sem er á mbl.is, kemur fram að á síðustu þremur árum hafi lögreglan farið 539 sinnum fram á það við héraðsdómstóla að fá heimild til símhlerana og í 533 tilfellum, þ.e. í tæplega 99% tilfella, var það bara samþykkt. Ég held að við þurfum ekki forvirkar rannsóknarheimildir en við þurfum að gera eitthvað. Ég held að við þurfum að breyta um tækni, ég held að stríðið gegn fíkniefnum sé tapað. Ég bendi á skýrslur Global Commission on Drug Policy þar sem því hefur verið haldið fram og þar sem fjallað er um þau mál af miklu meiri skynsemi en ég hef séð gert hér á landi. Við þurfum að bregðast við vandanum með öðrum aðferðum. Lausnin sem þessi hópur bendir á er meðal annars að líta á fíkniefnavandann sem heilbrigðisvandamál, hjálpa neytendum í vanda sínum en ekki ýta þeim út í þann jaðarheim afbrota og fíkniefnaviðskipta sem viðgengst og skipulögð glæpastarfsemi byggir á.

Mér finnst mjög brýnt að skoða þetta og einnig hvort ekki sé rétt að reglufesta fíkniefnamarkaðinn með einhverjum hætti, afglæpavæða hann, taka út þá gríðarlegu hagnaðarvon sem drífur þennan markað áfram. Ólöglegur markaður er nefnilega frjálsasti markaður sem til er, þar gilda lögmál villta vestursins, þar þrífst mansal, þar þrífast nauðung, okur og ofbeldi og þar eru ekki greiddir skattar. Við verðum að nálgast þau mál með öðrum hætti og lausnin felst ekki í öflugri viðbúnaði (Forseti hringir.) heldur aukinni mennsku.