141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

skipulögð glæpastarfsemi og staða lögreglunnar.

[11:27]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér þarft mál. Það liggur fyrir að lögreglan þarf að fá í kringum 500 milljónir í auknar fjárveitingar frá því sem er í fjárlagafrumvarpi ef ekki á að fara illa. Eitt af meginhlutverkum ríkisins er að tryggja borgurunum öryggi. Það verður ekki gert með þeirri stefnu sem hefur verið rekin í löggæslumálum hér á Íslandi undanfarin ár og við sjáum í fjárlagafrumvarpinu.

Ef við förum út um landsbyggðina sjáum við að það hefur verið skorið niður. Seinast í morgun voru fréttir af Suðurlandi þar sem talað var um að þyrfti að segja upp fjórum lögreglumönnum þannig að þeir yrðu 20 en matið hljóðar upp á yfir 30. Það er ljóst hvað það er sem lætur undan, það er öryggi borgaranna.

Ef við höldum áfram og förum norður í land sjáum við til dæmis að í Þingeyjarsýslum er einn maður á vakt á svæði sem er stærra en sem nemur Ísrael og hluta af Egyptalandi. Það er einn maður á vakt. Maður sér að þetta gengur ekki upp. (Gripið fram í.) Fyrir einhverjum árum var fangelsinu á Seyðisfirði breytt í útsölu fyrir Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins og það er sáralítil löggæsla á staðnum. Það er algjörlega ljóst að sú stefna sem er rekin í löggæslumálum er röng. Hún tryggir ekki öryggi borgaranna jafnframt sem nýir þættir ógna, eins og skipulögð glæpastarfsemi. Það er mjög nauðsynlegt að efla (Forseti hringir.) varnirnar þar og til þess þarf peninga.