141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

skipulögð glæpastarfsemi og staða lögreglunnar.

[11:32]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér heyrist greinilega að bæði stjórnarsinnar og stjórnarandstæðingar skora á hæstv. ráðherra og þingið sjálft að útvega lögreglunni upp undir 500 millj. kr. í óskiptan pott til að við getum staðið undir því að hafa öfluga löggæslu í landinu áfram.

Ég vek sérstaklega athygli á því, því að þessi umræða er frekar neikvæð vegna þess að það vantar svo mikla peninga í grunnstoðirnar, að það er líka hægt að benda á ýmislegt jákvætt. Ég bendi á að á vef ríkislögreglustjóraembættisins má skoða afbrotatíðni í landinu og bera ár saman. Þar kemur fram að á undanförnum árum hefur þjófnuðum og innbrotum fækkað vegna þess að lögreglan hefur verið að forgangsraða með því að einbeita sér að síbrotamönnum og taka þá af götunni og úr umferð. Þetta er mjög jákvætt.

Ég vil líka nefna að það er verið að þróa nýtt tæki, mjög öflugt tæki að mínu mati, svokallað vöruhús gagna, hjá lögreglunni þar sem hægt er að sjá rafrænt hvar verið er að fremja afbrot, hvar á landinu, hvar í borginni og hvers lags afbrot, sem sagt tegund afbrota. Þetta er uppfært á 10 mínútna fresti. Þarna er Ísland leiðandi í þróun tækis sem aðstoðar lögregluna við að einbeita sér að svæðum þar sem glæpir eru mestir. Þetta er ótrúlegt tæki. Það er margt mjög jákvætt að ske hjá lögreglunni þrátt fyrir að það hafi vantað frá hruni 2,8 milljarða, eins og ég skil það, í löggæsluna.

Ég vil að endingu líka taka undir það sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, Jóni Gunnarssyni, að mikilvægt sé að við fáum upplýsingar um það starf sem hefur farið fram í Noregi í tengslum við svokallaða Breivik-skýrslu. Mér skilst að ríkislögreglustjóraembættið þar hafi greint þá skýrslu og komið fram með ábendingar. Það kom fram hér hjá hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) og við fengum upplýsingar um það í allsherjar- og menntamálanefnd. Við teljum að sú nefnd eigi að fá að skoða þær ábendingar sem þar koma fram í ljósi þess alvarlega atburðar sem varð í Noregi og ef nefndarmenn þurfa að vera bundnir trúnaði þá verður svo að vera. (Forseti hringir.) Það er brýnt að við sjáum hvernig við þurfum að bregðast við til framtíðar á Íslandi eins og annars staðar.