141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[11:54]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að vekja máls á því að hér er gerð tillaga um að auka fjárheimildir til Fiskistofu um 40 millj. kr. vegna álagningar veiðigjalds og greint frá því að gert hafi verið ráð fyrir því þegar það frumvarp var á sínum tíma kostnaðarmetið að auka þyrfti þessi umsvif Fiskistofu. Mig langar að spyrja hv. formann fjárlaganefndar hvort hér sé um að ræða varanlega hækkun, hvort um það sé að ræða að rammi Fiskistofu muni varanlega stækka um 40 millj. kr. og hvort þess sé þar með að vænta að gera þurfi ráð fyrir því með sérstakri viðbótarfjárveitingu með breytingartillögu fyrir fjárlögin fyrir 2013 eða hvort búið hafi verið að gera ráð fyrir því á árinu 2013.

Það er líka dálítið athyglisvert að lesa að það þurfi að fjölga starfsmönnum um að minnsta kosti fjóra. Hvað er hér gefið til kynna? Er verið að gefa til kynna að menn reikni með því að þessi umsvif muni enn aukast?

Svo vil ég vekja athygli á því að hér er verið að kóróna sköpunarverkið. Veiðigjöldin munu leggjast á útgerðir á landsbyggðinni. Hér er hins vegar verið að auka (Forseti hringir.) atvinnusköpun á höfuðborgarsvæðinu, það er hið dæmigerða sem við sjáum. Var rætt um það, vegna þess að starfsstöðvar Fiskistofu (Forseti hringir.) eru úti um allt land, að þessi starfsemi færi fram annars staðar en í höfuðstöðvunum í Hafnarfirði?