141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[11:57]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá liggur sem sagt fyrir að þetta er varanleg hækkun, það er verið að auka umsvif Fiskistofu og það er afleiðing af veiðigjöldum. En hvað þýðir að minnsta kosti fjórir sérfræðingar? Er verið að boða að þetta sé einungis byrjunin, að það þurfi að horfa til þess að starfsemi Fiskistofu í Hafnarfirði, af því að ég horfi á hv. þm. Lúðvík Geirsson hérna, muni kannski vaxa ár frá ári vegna þess að þarna sé um að ræða svona vaxtarbrodd í atvinnustarfseminni, að leggja á veiðigjöld og hafa umsýslu með þeim?

Hv. þingmaður sagði síðan að ekki hefði verið rætt um staðsetninguna en það er bara svoleiðis að þessi starfsemi er hafin. Fiskistofa er núna í verkefnum upp fyrir haus, m.a. að bregðast við ýmsu sem er að koma upp í sambandi við veiðigjöldin. Það er búið að fresta gjalddögum á veiðigjaldinu og ég geri ráð fyrir að þessi starfsemi sé hafin í höfuðstöðvunum í Hafnarfirði eins og hefur alltaf verið að stefnt og allir áttuðu sig auðvitað á.

Ég hvet hv. þingmann til að beita þá áhrifum sínum, þó að hann sé (Forseti hringir.) nú kominn í framboð á höfuðborgarsvæðinu, til að færa þessa starfsemi út á land.