141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[11:58]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr hvað það þýði að segja að minnsta kosti fjórir starfsmenn. Það þýðir fjórir og kannski fleiri, ég reikna með því. Það eru þá að minnsta kosti fjórir og væntanlega eitthvað umfram það.

Varðandi starfsemina sem slíka mátti auðvitað búast við því og það var gerð grein fyrir því í frumvarpinu um veiðigjöldin — þau voru rædd á þinginu í fyrravor og samþykkt — að það mundi auðvitað þýða aukið umfang Fiskistofu. Það kemur fram í umsögn fjármálaráðuneytisins um það frumvarp að umfangið mundi kosta um 40 millj. kr. á ári. Það er verið að bregðast við því hér þannig að það er ekkert nýtt í því. Auðvitað þýðir aukið umfang aukinn kostnað og aukinn mannskap.

Ég get hins vegar tekið undir með hv. þingmanni að það ber að dreifa umfanginu og ég hvet til þess að Fiskistofa sjái til þess að starfsemin fari víða um land. Fiskistofa er með starfsemi víða um landið og henni er engin vorkunn í því að skipuleggja starfsemi sína þannig að hægt sé að auka umsvif hennar annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu. (Forseti hringir.) Ég mun beita mér fyrir því.