141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[12:00]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú kann það að vera svo að þeir sem sitja í meiri hluta nefndarinnar hafi einhverjar skoðanir á Ríkisendurskoðun. En þannig er að frumvarpið þarf að fara til þingsins sjálfs, í þingsalinn þar sem sitja 63 hv. þingmenn. Það er krafa okkar margra hér inni að við séum ekki sett í þá stöðu að afgreiða jafnmikilvægt mál og fjáraukann án þess að fyrir liggi mat Ríkisendurskoðunar á frumvarpinu áður en það verður að lögum.

Virðulegi forseti. Það er óásættanlegt að meiri hluti nefndarinnar skuli hafa komist að þeirri niðurstöðu og þannig svipt Alþingi Íslendinga möguleikanum á því að fá mat Ríkisendurskoðunar til að hægt væri að leggja það til grundvallar í umræðu í þingsalnum.

Virðulegi forseti. Þessi vinnubrögð meiri hluta fjárlaganefndarinnar eru ekki boðleg.