141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[12:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi ber fjárlaganefnd og Alþingi engin skylda til þess, hvorki lagaleg né önnur, að vísa fjáraukalagafrumvarpi til Ríkisendurskoðunar eða annað. Það hvílir engin lagaleg skylda á fjárlaganefnd að gera það. Það var okkar ákvörðun að frumvarpinu væri betur komið án þess, að þessu sinni í það minnsta, og við stöndum alveg við það. Frumvarpið ber þess merki að það er tilbúið til umfjöllunar. Ég hef ekki séð eina einustu breytingartillögu frá minni hluta þingsins eða minni hluta fjárlaganefndar við fjáraukalagafrumvarpið. Ekki eina einustu breytingartillögu við þær fjölmörgu breytingar sem eru þó í fjáraukalagafrumvarpinu. Ekki eina breytingartillögu og það hlýtur þá að vera vísbending um að frumvarpið sé ágætlega búið til þingsins og tækt til afgreiðslu.