141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[12:04]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Það er ekkert einkennilegt við það að lesa úr þeim tölum sem fjárlaganefndinni eru bornar svona. Ég er satt að segja að vona að það sé einhver misskilningur í því svari sem við fengum. 102 aðgerðir eiga að kosta 42 millj. kr. en 50 aðgerðir eiga að kosta 60 millj. kr. Ég fæ þetta einhvern veginn ekki til að ganga upp. Ég hefði til dæmis talið að svona atriði krefði fjárlaganefndina um betri vinnu og betri greiningu á þeim fjárbeiðnum sem koma fram. Þar af leiðandi er þetta ágætisdæmi um að nefndin hafi ekki gefið sér þann tíma sem hún þarf til að fara í gegnum þær fjárbeiðnir sem óskað hefur verið eftir.

Síðan í öðru lagi varðandi umræðuna um Fiskistofu. Gert er ráð fyrir að þar verði fjögur störf; lögfræðingur, viðskiptafræðingur og síðan tveir sérfræðingar. Manni er spurn — af því að í fjárlögum næsta árs, 2013, er sambærileg fjárhæð, 40 millj. kr., ætluð í þetta — er þörf á því að vera með fjóra starfsmenn á þessum sviðum bundna við það að hafa eftirlit með einni reglugerð sem liggur að baki þessari gjaldtöku? Er ekki hægt að fela það tekju- og bókhaldskerfi ríkisins undir Fjársýslunni að annast um þetta?