141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[12:06]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Samkvæmt lögum um veiðigjöld fer Fiskistofa með stjórnsýslu veiðigjaldanna, þ.e. innheimtu þeirra og umsýslu alla, og okkur ber auðvitað að fylgja þeim lögum sem við samþykktum í vor hvað það varðar. Kostnaðurinn er þessi, alveg sama hvar hann fellur til. Þetta er aukið umfang, þetta er umfangsmikið mál. Það er verið að innleiða veiðigjöld í fyrsta skipti, verið er að reikna út arð af sameiginlegum auðlindum á annan hátt en áður hefur verið gert. Þetta er því umfangsmikið starf og umfangsmikil vinna sem þarna fer fram. Meðan við ákveðum ekki annað en að Fiskistofa hafi með þetta mál að gera sjáum við til þess að greitt sé fyrir það.