141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[12:06]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur verið ágætissamhljómur í fjárlaganefnd um aukinn aga við fjárlagagerðina og það er gott. Hafin hefur verið vinna við ný fjárreiðulög þar sem auka á agann og væntanlega koma í veg fyrir fjáraukalög eins og við erum að glíma við í dag og eru til umræðu.

Mig langar til að spyrja hv. þm. Björn Val Gíslason hvort hann sé reiðubúinn að beita sér fyrir því að nýtt frumvarp til fjárreiðulaga komi fram á yfirstandandi þingi, það er fyrsta spurningin.

Önnur spurningin er hvort einhverjar efnislegar ástæður séu fyrir því að Ríkisendurskoðun var ekki fengin til þess að fara yfir frumvarpið. Þingmaðurinn fullyrðir að þetta hafi verið mat meiri hlutans en svo virðist sem það mat sé (Forseti hringir.) byggt á einhverju persónulegu, en við höfum ekki séð nein efnisleg rök. Það væri gott að fá þau fram í umræðunni.