141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[12:08]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Forseti. Fjáraukalagafrumvarpið sem við ræðum um er til vitnis um aukinn aga í stýringu á ríkisfjármálum. Ég fór yfir það við 2. umr. frumvarpsins á dögunum. Það stefnir í að við séum rétt við það að nálgast það sem þykir eðlilegt í öðrum löndum varðandi fjáraukalagafrumvörp, það sé sem sagt hlutfall af útgjöldum ríkisins. Það er ekki markmiðið að koma í veg fyrir fjáraukalagafrumvörp og að þau leggist af. Það er ekki markmiðið til dæmis með nýjum fjárreiðulögum heldur að þau verði betur búin og betur gerð og við fylgjum betur eftir þeim lögum sem þau varða, þ.e. hvað þau eiga að innihalda, sem er fyrst og fremst útgjöld sem eru ófyrirséð en ekki annað sem mætti sjá fyrir í fjárlagagerð, sem dæmi. Þar þurfum við að bæta okkur hins vegar.

Fjárreiðulögin sjálf sem eru í smíðum — ég mun beita mér fyrir því að þau muni verða lögð fram á yfirstandandi þingi. Ég held að við göngum öll út frá því að það verði gert hvort sem við náum að afgreiða þau (Forseti hringir.) eða ekki, tíminn verður að leiða í ljós hvernig það vinnst hjá okkur. En ég mun beita mér fyrir því að ný fjárreiðulög líti dagsins ljós á yfirstandandi þingi.